Nóg af könglum og fræheimtur góðar

Fræsöfnun. Birkið er afurðaríkt.
Fræsöfnun. Birkið er afurðaríkt. Ljósmynd/Aðsend

„Sitkagrenið sunnanlands og vestan er drekkhlaðið af könglum og við höfum náð miklu af slíku fræi í haust,“ segir Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi. Eftir hlýtt og gróskumikið sumar er frætekja í skógum landsins góð. Slíkt gildir meðal annars um birkitré.

Auðvelt reyndist að safna fræreklum af þeim í blíðviðrinu nú í október og heimtur voru góðar í átaki því sem Skógræktin, Landgræðslan og fleiri efndu til. Almenningur svaraði kalli, tíndi rekla og skilaði fræjum í kassa sem voru við verslanir.

Í söfnun á fræjum af sitkagreni var sjónum beint að skógarreit á Tumastöðum í Fljótshlíð og reit í Haukadal í Biskupstungum sem kenndur er við Hákon heitinn Bjarnason, fyrrum skógræktarstjóra. Þessi fræ eru hreinsuð á Tumastöðum og síðan notuð við ræktun á skógarplöntum á gróðrarstöðvum um allt land.

„Lítið hefur verið af könglum á stafafuru, en okkur vantar allt að eitt tonn af slíkum könglum til þess að eiga nóg af fræi til ræktunar á næsta ári. Okkur vantar líka alltaf fræ af sitkagreni og segja má að okkar starf síðustu vikur hafi snúist um fræsöfnun, sem fram hefur farið í þjóðskógunum og víðar á Suðurlandi,“ segir Trausti.

„Núna eru síðustu forvöð að ná fræi af birki og greni, en sé veður hagstætt má tína köngla af furunni langt fram eftir vetri.“ sbs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert