Enski boltinn

Liverpool liðið fær ekki á sig mark með Fabinho í miðverði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabinho í leik með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni. Hann er ekki bara frábær miðjumaður heldur mjög góður miðvörður líka.
Fabinho í leik með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni. Hann er ekki bara frábær miðjumaður heldur mjög góður miðvörður líka. EPA-EFE/Shaun Botterill

Fabinho leysti í gærkvöldi miðvarðarstöðu hollenska miðvarðarins Virgil van Dijk þegar Liverpool vann 1-0 útisigur á Ajax í fyrsta leik liðanna í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á þessu tímabili.

Virgil van Dijk sleit krossband í jafnteflinu á móti Everton um síðustu helgi og Joel Matip var einnig óleikfær vagna meiðsla sem hann hlaut í þeim sama leik.

Fabinho hefur verið að gera flotta hluti inn á miðju Liverpool liðsins en hann er fjölhæfur leikmaður sem getur hoppað inn í margar stöður á vellinum.

Fabinho lék vel í miðvarðarstöðunni í gær og Liverpool liðið hélt hreinu. Fabinho þurfti reyndar að bjarga einu sinni á marklínu og Adrian varði líka úr dauðafæri en Ajax mönnum tókst ekki að skora eða fá eitthvað út úr leiknum.

Eftir smá grúsk þá komust menn líka að því að það hefur gengið vel hjá Liverpool liðinu að verjast með Fabinho í miðri vörninni.

Leikurinn í gær var fjórði byrjunarliðsleikur hans í miðverði í ensku úrvalsdeildinni eða Meistaradeildinni og í engum þeirra hefur mótherjunum tekist að skora. Leikirnir eru eftirtaldir:

Fabinho lék með Joe Gomez í miðverði í 1-0 sigri á Ajax í Meistaradeildinni í gærkvöldi.

Fabinho lék með Virgil van Dijk í miðverði í 2-0 sigri á Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á Stamford Bridge 20. september síðastliðinn.

Fabinho lék með Joel Matip í miðverði í 0-0 jafntefli á móti Bayern München á Anfield í Meistaradeildinni 19. febrúar 2019.

Fabinho lék með Virgil van Dijk í miðverði í 1-0 sigri á Brighton í ensku úrvalsdeildinni 12. janúar 2019.

Fabinho hefur þar með leikið í 360 mínútur sem miðvörður i þessum leikjum án þess að fá á sig mark.

Liverpool liðið hefur engu að síður bæði fengið á sig mark og tapað leik með Fabinho í miðverði en það var á móti Úlfunum í ensku bikarkeppninni 7. janúar 2019. Fabinho lék þá með Dejan Lovren í miðverði og Liverpool tapaði 2-1 á útivelli í þriðju umferð enska bikarsins.

Síðan þá hefur Liverpool ekki fengið á sig mark í þeim leikjum sem Brasilíumaðurinn hefur spilað aftast í vörninni og skiptir það ekki mál hvort hann hafi verið við hlið Virgil van Dijk, Joel Matip eða Joe Gomez eins og í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×