Ná samkomulagi um stækkun Tæknifræðisetursins

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Samkomulag um stækkun Tæknifræðiseturs Háskóla Íslands í Menntasetrinu við Lækinn í Hafnarfirði var undirritað á dögunum af Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra Harnarfjarðar og Jón Atla Benediktssyni rektor Háskóla Íslands.

Þetta kemur fram í tilkynningu Háskóla Íslands.

Við Tæknifræðisetrið stendur nemendum annars vegar til boða að sækja þriggja anna diplómanám í tæknigreinum á fagháskólastigi , og hins vegar BS-nám í tæknifræði sem heyrir formlega undir rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands.

Búist er við að enn fleiri muni sækja um nám við Tæknifræðisetrið og þarf því að bregðast við með stækkun húsnæðis fyrir starfsemina. Með nýjum samningi fær Tæknifræðisetrið afnot af einni hæð til viðbótar í húsnæði Menntasetursins við Lækinn, og verða hæðirnar þar með tvær. Verður nýja hæðin meðal annars nýtt til að efla verklega kennslu og bæta nemendaaðstöðu.

Fulltúar Hafnarfjarðarbæjar, Háskóla Íslands, Tæknifræðisetursins og Menntasetursins við Lækinn við …
Fulltúar Hafnarfjarðarbæjar, Háskóla Íslands, Tæknifræðisetursins og Menntasetursins við Lækinn við undirritun samningsins. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Búast við enn fleiri nemendum

Fjöldi nemenda í tæknifræðinámi hefur nær tvöfaldast á síðustu þremur árum, eða frá því að tæknifræðin var flutt frá Ásbrú í Reykjanesbæ í Menntasetrið við Lækinn.

Var markmiðið með flutningunum meðal annars að efla enn frekar umgjörð námsins og leggja sterkan grunn að styttra fagháskólanámi í tæknigeiranum.

Í tilkynningu HÍ segir Rósa Guðbjartsdóttir að ánægjulegt sé að Menntasetrið við Lækinn sé að verða með sýnilegum hætti hús sköpunar, fræða og tækni. Jón Atli Benediktsson segir mikið ánægjuefni hversu jákvæð þróunin hefur verið í tæknifræðináminu eftir að það flutti í Tæknifræðisetrið í Hafnarfirði 2018. Hann bætir við að tæknifræði sé mikilvæg hagnýt grein fyrir íslenskt samfélag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert