Sögulegur stórsigur Færeyinga

Brandur Olsen skoraði tvö mörk fyrir Færeyinga í kvöld.
Brandur Olsen skoraði tvö mörk fyrir Færeyinga í kvöld. mbl.is/Eggert

Færeyingar sýndu í kvöld að góð frammistaða þeirra gegn Íslendingum á dögunum var engin tilviljun en þeir unnu í kvöld stórsigur á Liechtenstein, 5:1, í vináttulandsleik karla í knattspyrnu á Tórsvelli í Þórshöfn.

Maximilian Göppel kom Liechtenstein yfir á 19. mínútu en Færeyingar sneru við blaðinu fyrir hlé. Klæmint Olsen jafnaði og Brandur Olsen, fyrrverandi FH-ingur, skoraði tvö mörk á þremur mínútum skömmu fyrir hlé og staðan var orðin 3:1.

Klæmint Olsen skoraði aftur á 65. mínútu og bakvörðurinn Viljormur Davidsen skoraði fimmta markið úr vítaspyrnu á 79. mínútu.

Liechtenstein er sem kunnugt er með Íslandi í riðli í undankeppni HM og Ísland vann leik þjóðanna í Vaduz í marsmánuði 4:1.

Sigurinn er sögulegur fyrir Færeyinga sem hafa aldrei áður skorað fimm mörk í A-landsleik karla gegn aðildarþjóð FIFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert