Erlent

Finn­land og Sví­þjóð ætli hönd í hönd í NATO

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Marin og Kristersson sögðu ekki koma til greina að Finnar gengju í NATO og skildu Svía eftir fyrir utan bandalagið.
Marin og Kristersson sögðu ekki koma til greina að Finnar gengju í NATO og skildu Svía eftir fyrir utan bandalagið. Atila Altuntas/Getty

Finnland og Svíþjóð stefna enn að því að ganga í Atlantshafsbandalagið, NATO, á sama tíma, þrátt fyrir andstöðu Tyrkja við aðild Svía að bandalaginu. Þetta ítrekuðu forsætisráðherrar ríkjanna tveggja á blaðamannafundi í Stokkhólmi í dag.

Recep Tayyip Erdoğan, forseti Tyrklands, sagði á dögunum að Tyrkir myndu mögulega leggja blessun sína yfir aðildarumsókn Finna að bandalaginu án þess að samþykkja umsókn Svía á sama tíma. Öll aðildarríki NATO þurfa að samþykkja umsóknir utanaðkomandi ríkja að bandalaginu til að þær nái fram að ganga.

Tyrkland og Ungverjaland eru einu aðildarríki NATO sem enn eiga eftir að greiða atkvæði um umsóknir Finna og Svía en gert er ráð fyrir að ungverska þingið taki þær til umræðu í febrúar.

Erdogan sagði á fundinum í gær að Tyrkir gætu mögulega „sjokkerað“ Svía með því að segja já við Finnland en halda að sér höndum hvað varðar Svíþjóð. Þá ítrekaði hann kröfu sína um að Svíar framseldu hóp Kúrda, sem hann sjálfur vísaði til sem „hryðjuverkamanna“.

Svíþjóð sé ekki vandræðabarn

Á blaðamannafundi í Stokkhólmi í dag sögðu Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, og Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, það vera af og frá að Finnar færu inn í bandalagið á undan Svíum. 

„Ég kann ekki við að litið sé á Svíþjóð sem eitthvað vandræðabarn í þessu samhengi. Sú er ekki raunin,“ sagði Marin og bætti við að Svíþjóð uppfyllti öll þau skilyrði sem þyrfti til að ganga í bandalagið.

„Við hófum þessa vegferð í átt að aðild saman og munum halda henni áfram,“ sagði Kristersson á fundinum.


Tengdar fréttir

Biðja sænska ríkis­­borgara að gæta sín

Sænsk yfirvöld biðja ríkisborgara sína að forðast mannmergð í Tyrklandi. Kveikt var í Kóraninum á mótmælafundi í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi í vikunni og sögðu tyrknesk stjórnvöld að Svíar ættu ekki að gera ráð fyrir stuðningi þeirra vegna umsóknar að NATO.

Segir Tyrki mögu­lega munu hleypa Finnum inn án Svía

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti segir Tyrki mögulega munu leggja blessun sína yfir aðildarumsókn Finna að Atlantshafsbandalaginu án þess að samþykkja að hleypa Svíum inn á sama tíma.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×