Fara þarf varlega í samanburð á einingakostnaði lítils flugfélags á borð við Icelandair, og flugfélaga sem hafa tengimiðstöð á fjölmennari svæðum og eru hluti af stórum samsteypum flugfélaga.“ Þetta skrifar Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair, í skoðunargrein sem birtist á vef Vísis í morgun.

Úlfar virðist hér vitna í aðsenda grein Egils Almars Ágústssonar, fyrrverandi forstöðumanns leiðakerfis Icelandair, sem birtist í Viðskiptablaðinu í lok febrúar. Í henni bar Egill saman einingarkostnað Icelandair og írska flugfélagsins Aer Lingus sem hann segir reka sambærilegt viðskiptamódel á Atlantshafinu. Aer Lingus væri eitt arðbærasta flugfélag Evrópu í dag en munurinn á félögunum tveimur skýrist af því að það írska er með „mun lægri kostnað“. Aer Lingus er dótturfélag IAG sem á meðal annars British Airways

Úlfar bendir þó á að innan slíkra samsteypa flugfélaga eru ýmsir kostnaðarliðir miðlægir, t.d. hvað varðar flota- og viðhaldsmál, fjármögnun, upplýsingatækni og innkaup aðfanga og njóta þau hagkvæmni stærðar hvað þá liði varðar. Við samanburð á einingakostnaði Icelandair og slíkra flugfélaga þurfi því að taka tillit til þeirra þátta ef markmiðið er að halda áfram að reka sjálfstætt flugfélag sem greiðir góð laun og leggur til samfélagsins á fjölmargan hátt.

„Verkefnið væri auðvelt ef það fæli einungis í sér lækkun einingakostnaðar. Félagið er og verður íslenskt, og því fylgir að við þurfum að fara okkar leið í að keppa alþjóðlega. Markmiðið er að þjóna farþegum á hagkvæman hátt og á sama tíma skapa virði sem skilar sér til hluthafa, starfsfólks og samfélagsins hér heima,“ skrifar Úlfar.

Hann segir einnig mikla einföldun að halda því fram að Icelandair sé ávallt verðtaki á markaðnum fyrir tengiflug á milli Evrópu og Norður-Ameríku, líkt og Egill Almar talaði um í sinni grein. Verðlagning Icelandair taki vissulega mið af framboði af beinu flugi milli áfangastaða Icelandair en annað sé uppi á teningnum ef ekkert beint flug er á milli áfangastaða, líkt og milli Denver og Bergen. Í þeim tilvikum er Icelandair ekki verðtaki og geti boðið upp á bestu vöruna á markaðnum.

Mikil mistök hafi þó verið gerð í stýringu leiðarkerfisins árið 2018. „Þegar íslenska krónan er tiltölulega sterk og verðlagning almennt ósjálfbær á VIA markaðnum á félagið ekki að horfa til vaxtar á þeim markaði. Sérstaklega ekki á áfangastöðum þar sem félagið hefur ekkert samkeppnisforskot,“ segir Úlfar. Þó hafi orðið breytingar á því samkeppnisumhverfi sem ríki á Norður-Atlantshafsmarkaðnum sem muni draga úr þeirri ósjálfbærri samkeppni sem hafi verið þar til staðar.

Útboðið sýndi trú fjárfesta á núverandi stjórn

Úlfar segist bjartsýnn á framhaldið, ekki síst vegna þeirra einstaklinga í stjórn félagsins sem hafi öll komið ný inn „með ferska vinda“ á síðustu þremur árum. Að hans mati hafi góður árangur í hlutafjárútboði Icelandair síðasta september hafi sýnt að fjárfestar hafi mikla trú á stjórnendateyminu en töluverð umframáskrift var í útboðinu ásamt því að hlutahafahópurinn fjórfaldaðist.

Sjá einnig: Hiti hlaupinn í stjórnarkjör Icelandair

„Guðmundur Hafsteinsson hefur fært félaginu mikla þekkingu á stafrænni þróun, nýtingu gagna og áherslu á upplifun viðskiptavinarins og Svafa Grönfeldt hefur unnið þrekvirki við mótun og innleiðingu nýrrar stefnu hjá félaginu. Nina Jonsson og John F. Thomas komu svo fyrir ári síðan ný inn í stjórnina með gríðarlega þekkingu og reynslu af alþjóðlegum flugrekstri.“

Úlfar segir að ýmsar breytingar hafi verið gerðar innan félagsins á síðustu misserum sem margir fyrrverandi stjórnendur hafa til margra ára talað um að væru nauðsynlega „en enginn ráðist í fyrr en nú.“