Metinn hæfastur og krefst skipunar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einn umsækjenda af sex sem sóttu um embætti forstjóra nýrrar Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála sl. haust hefur krafist þess að Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra afturkalli ákvörðun sína um að stöðva skipunarferlið og skipi umsækjandann í embættið samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Umræddur umsækjandi var metinn hæfastur umsækjendanna um starfið af ráðgefandi hæfnisnefnd, sem félagsmálaráðherra skipaði til að meta hæfni umsækjenda en nefndin skilaði niðurstöðu sinni í nóvember. Ráðherra ákvað hins vegar að fara ekki eftir niðurstöðu nefndarinnar og auglýsti embættið á nýjan leik 7. janúar sl. og rennur umsóknarfresturinn út 27. janúar.

Umsækjandinn hefur fengið liðveislu stéttarfélags síns og lögmanns vegna málsins og krafist þess skv. upplýsingum blaðsins að ráðherra falli tafarlaust frá þeirri ákvörðun að hætta við skipun í embætti forstjóra stofnunarinnar samkvæmt því ferli sem sett var í gang í september sl. þegar fyrst var birt auglýsing um embætti forstjóra. Umsækjandinn hafi ótvírætt verið metinn hæfastur umsækjenda og uppfylli allar hæfniskröfur sem auglýst var eftir og ráðherra beri því að skipa hann í embættið.

Boðar dómsmál og bótakröfu verði ekki orðið við kröfunum

Mun ráðuneytinu hafa verið tilkynnt að verði ekki orðið við þessum kröfum verði höfðað dómsmál gegn félagsmálaráðherra og kröfur gerðar um bætur á hendur ríkinu vegna meintra ólögmætra ákvarðana ráðherrans.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála tók til starfa 1. janúar sl. samkvæmt lögum sem Alþingi samþykkti á seinasta ári. omfr@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert