Tveggja metra regla um land allt

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra og starfandi heilbrigðisráðherra, að loknum ríkisstjórnarfundi …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra og starfandi heilbrigðisráðherra, að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi heilbrigðisráðherra, kynnti minnisblað sóttvarnalæknis á ríkisstjórnarfundi nú fyrir hádegi. Lagt er til að tveggja metra reglan verði tekin upp um land allt en ekki bara á höfuðborgarsvæðinu eins og verið hefur. Breytingarnar munu taka gildi þriðjudaginn 20. október.

Þá leggur sóttvarnalæknir til að það sem áður voru tilmæli um íþróttastarf barna og unglinga á höfuðborgarsvæðinu verði fært í reglugerð. Er þá átt við íþróttir sem fela í sér snertingu þátttakenda.

Óbreyttar reglur í grunninn

„Þetta er í meginatriðum sama reglugerð og verið hefur nema að því leytinu til að tekin verði upp tveggja metra fjarlægðartakmörk á öllu landinu en ekki bara höfuðborgarsvæðinu,“ segir Guðmundur við mbl.is.

„Einnig leggur sóttvarnalæknir til að það sem áður voru tilmæli um snertiíþróttir barna og fullorðinna á höfuðborgarsvæðinu verði fært í reglugerð. Þar að auki verða teknar upp sömu reglur við starfsemi sviðslista á öllu landinu og verið hafa á höfuðborgarsvæðinu undanfarið.“

Ekki verða gerðar frekari breytingar á öðrum þáttum sóttvarnaaðgerða. Enn verða skólar til að mynda opnir miðað við núgildandi reglugerð og engin breyting verður á starfsemi veitingahúsa.

Guðmundur segir stefnt að því að kynna reglugerðarbreytingar á morgun.

Nánar á vef Stjórnarráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert