Gamla ljósmyndin: Nokkur hundruð fóru bónleið til búðar

Morgunblaðið/Júlíus

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Mörg íslensk félög senda lið, bæði karla- og kvennalið, til keppni í Evrópukeppnum félagsliða í handknattleik í vetur. Á þessari öld hefur þátttaka íslenskra handboltaliða verið frekar lítil á heildina litið, oftar nær vegna þess kostnaðar sem þátttökunni óneitanlega fylgir. En nú hefur ræst úr. 

Á níunda áratungum áttu íslensk félagslið afar góðu gengi að fagna í Evrópukeppnunum í handknattleik. Lengst komst Valur þegar liðið fór alla leið í úrslit en Þróttur R., Víkingur R. og FH náðu öll í undanúrslit á þessum árum. 

Áhuginn á handknattleik var mikill hjá landanum á þessum árum og íþróttaunnendur voru geysilega duglegir að mæta á völlinn. Meðfylgjandi mynd er tekin 25. nóvember árið 1984 þegar FH sló út ungversku meistarana Honved í 8-liða úrslitum Evrópukeppni meistaraliða. Myndina tók Júlíus Sigurjónsson sem myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is í áratugi.

Á myndinni má sjá áhorfendur nýta svo gott sem hvern einasta blett í Laugardalshöllinni. Nokkuð sem aldrei kæmist í gegnum leyfiskerfin hjá alþjóða hreyfingunni í dag. Samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins var talið að um þrjú þúsund manns hafi verið á leiknum í Höllinni og komust færri að en vildu. 

„Nokkur hundruð handknattleiksunnendur urðu að bíta í það súra epli að komast ekki inn þar sem uppselt var á leikinn. Það var um klukkan 20 sem síðustu miðarnir voru seldir en þá voru langar biðraðir við miðasölurnar þrjár í Laugardalshöllinni,“ sagði meðal annars í umfjöllun Morgunblaðsins. 

Í undanúrslitum mætti FH ofjarli sínum, hinu frábæra liði Metaloplastika Sabac frá Júgóslavíu sálugu, sem fór alla leið og sigraði í keppninni. 

Á myndinni sést línumaðurinn snjalli og fyrirliði FH, Þorgils Óttar Mathiesen, skora eitt af sex mörkum sínum í heimaleiknum gegn Honved í Laugardalshöllinni sem FH vann 26:22. „Þetta er toppurinn á mínum ferli fram að þessu. Það gera sér sennilega fæstir grein fyrir því hversu mikið afrek það er að slá ungversku meistarana út í Evrópukeppni meistaraliða. Þetta er meiriháttar árangur hjá FH,“ sagði Þorgils Óttar í samtali við Þórarin Ragnarsson í Morgunblaðinu þriðjudaginn 27. nóvember 1984. 

Þorgils Óttar var ekki einn þeirra sem flökkuðu á milli liða heldur lék hann allan sinn feril með FH og varð Íslandsmeistari með liðinu 1984, 1985 og 1990. Lék hann 247 A-landsleiki og fór tvívegis á Ólympíuleika 1984 og 1988. Þorgils Óttar var lengi landsliðsfyrirliði, til dæmis þegar Ísland hafnaði í 6. sæti á HM 1986, og veitti bláa vasanum móttöku þegar Ísland vann B-heimsmeistarakeppnina árið 1989. Þorgils Óttar var valinn í heimsliðið og lék með því í Portúgal árið 1989. 

Þorgils Óttar Mathiesen hafnaði í 3. sæti í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins árið 1989. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert