Hallgrímur áfram leikmaður og þjálfari

Hallgrímur Jónasson hefur verið á hliðarlínunni hjá KA síðan hann …
Hallgrímur Jónasson hefur verið á hliðarlínunni hjá KA síðan hann slasaðist í júní 2020 en hann verður með liðinu á ný á næsta tímabili. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Hallgrímur Jónasson, fyrrverandi landsliðs- og atvinnumaður í knattspyrnu, hefur skrifað undir nýjan samning við KA fyrir næsta tímabil, sem leikmaður og aðstoðarþjálfari.

Hallgrímur, sem er 35 ára gamall, náði ekkert að spila á nýloknu tímabili eftir að hafa slasast illa á hné í leik með KA í júnímánuði 2020. Hann er hinsvegar klár í slaginn á ný fyrir næsta tímabil.

Hann kom til liðs við KA í ársbyrjun 2018 efti rað hafa leikið um árabil í Danmörku og Svíþjóð og spilað 16 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Hann á samtals að baki 333 deildaleiki á ferlinum, þar af 77 í íslensku úrvalsdeildinni með KA og Keflavík.

Á heimasíðu KA segir m.a. um Hallgrím: „Haddi hefur komið af miklum krafti inn í félagið og á svo sannarlega stóran þátt í því að lyfta félaginu upp á þann stall sem það er nú komið. Ekki nóg með að vinna ötullega að starfi meistaraflokks hefur hann einnig látið til sín taka í yngriflokkastarfinu og miðlað af sinni miklu reynslu“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert