Sigur í síðasta leik fyrir Ólympíuleikana

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik.
Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik. AFP

Þórir Hergeirsson og leikmenn hans í norska kvennalandsliðinu í handknattleik luku undirbúningi sínum fyrir Ólympíuleikana í Tókýó með besta móti í morgun.

Liðið vann þá öruggan 32:25-sigur gegn Svíþjóð í vináttulandsleik, þeim síðasta hjá báðum liðum áður en keppni hefst í handknattleik kvenna á leikunum næstkomandi sunnudag.

Talsvert jafnræði var með liðunum til að byrja með og leiddu þær norsku með tveimur mörkum, 16:14, í hálfleik.

Í síðari hálfleik tóku Evrópumeistararnir í Noregi hins vegar leikinn yfir og unnu að lokum öruggan sjö marka sigur.

Fyrsti leikur liðsins fer sem áður segir fram á sunnudaginn og verður gegn Suður-Kóreu í A-riðlinum.

Karlalið þjóðanna mættust einnig í morgun, en sá leikur endaði með jafntefli, 26:26, í hörkuleik þar sem staðan var 15:15 í hálfleik.

Bæði lið hefja leik á leikunum næstkomandi laugardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert