Fótbolti

Fram­lína Dana fær fall­ein­kunn fyrir frammi­stöðuna á Laugar­dals­velli

Anton Ingi Leifsson skrifar
Yussuf Poulsen í baráttunni við Hörð Björgvin Magnússon í gær. Danskir voru ekki hrifnir af frammistöðu Yussuf í leiknum.
Yussuf Poulsen í baráttunni við Hörð Björgvin Magnússon í gær. Danskir voru ekki hrifnir af frammistöðu Yussuf í leiknum. vísir/vilhelm

Það eru ekki háar einkunnirnar sem framlína Dana fær fyrir frammistöðuna á Laugardalsvelli í gær ef lítið er á einkunnagjöf danska miðilsins BT.

Danir unnu 3-0 sigur í gær. Fyrsta markið var óheppilegt sjálfsmark Rúnars Más Sigurjónsson, miðjumaðurinn Christian Eriksen skoraði annað markið og vinstri bakvörðurinn Robert Skov þriðja markið.

Danirnir sköpuðu sér ekki mörg hættuleg færi í leiknum og þeir Yussuf Poulsen [frá Leipzig], Kasper Dolberg [frá Nice] og Martin Braithwate [frá Barcelona] fengu falleinkunn frá BT í leikslok.

„Þetta var meira Superligan [danska úrvalsdeildin] en Barcelona,“ sagði í umsögninni um Braithwate. „Eins og gríma frá Midtjylland sem ekki virkar,“ sagði svo um Yussuf Poulsen.

Þeir fengu allir fjóra í einkunn og voru lægstir í einkunnagjöf BT.

Besti maður vallarins að mati BT var vinstri bakvörðurinn Robert Skov sem fékk átta í einkunn en einkunnirnar og umsagnir BT um danska liðið má sjá í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×