„Sýnir hvað við erum með sterkan hóp“

Gunnhildur Yrsa í leiknum í kvöld.
Gunnhildur Yrsa í leiknum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins, var á skotskónum í frábærum 4:0 sigri gegn Tékklandi í undankeppni HM 2023 í kvöld. Hún var hæstánægð með frammistöðu liðsins.

„Við erum mjög ánægðar, þetta er náttúrlega mjög sterkt lið. Við vissum af því. Þær gerðu jafntefli við Holland þannig að við vissum að þær væru sterkar en við vissum líka að við þyrftum sigur í þessum leik.

Við komum brjálaðar inn í leikinn og ég er ánægð með að við höfum náð að skora fjögur mörk og halda hreinu. Það er mjög gott,“ sagði Gunnhildur Yrsa í samtali við RÚV eftir leikinn.

Staðan var 1:0 lengi vel og Tékkar ógnuðu gjarna. Fór eitthvað um liðið í þeirri stöðu?

„Ég held að við höfum haft fulla stjórn á þessu en auðvitað þegar staðan er 1:0 er allt hægt. Við vissum af því að við þyrftum að setja í annan gír og skora annað mark.

Um leið og það gerðist fór þetta aðeins að rúlla. En Tékkland er með frábært lið, þær þora að halda boltanum þannig að við vorum mjög þéttar fyrir og fórum eftir plani og það gekk í dag,“ sagði hún.

Í undankeppninni fyrir HM 2019 gerði íslenska liðið tvö jafntefli gegn Tékklandi, sem gerði út um vonir Íslands um að komast í lokakeppnina. Ísland átti því harma að hefna í kvöld.

„Já auðvitað. Við gerðum tvö jafntefli við þær í seinustu undankeppni þannig að við vissum að við værum að fara í mjög erfiðan leik. Ég er mjög sátt með liðið og hvað við gerðum í dag. Við vorum hugrakkar, vildum vinna, við ætluðum okkar það í dag og gerðum það,“ sagði Gunnhildur Yrsa.

Guðrún Arnardóttir kom mjög sterk inn í miðvörðinn. Spurð um frammistöðu hennar sagði Gunnhildur Yrsa:

„Hún og allt liðið áttu frábæran leik, og allar þær sem komu inn á. Þetta sýnir hvað við erum með sterkan hóp, að við getum gert breytingar og átt svona sterkan leik. Allar stelpurnar stóðu sig frábærlega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert