Svarið að gefa í

Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik í Vestmannaeyjum.
Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Einn besti ef ekki besti markvörður sem spilað hefur fyrir Íslands hönd var með sýningu þegar hann mæti með Haukum til Vestmannaeyja í úrvalsdeild karla í handknattleik í kvöld, Olísdeildinni, í kvöld en lið ÍBV var andstæðingurinn.

Liðin áttust við í 13. umferð deildarinnar en Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik, hann var með rétt tæplega 50% vörslu í sjö marka sigri gestanna.

„Við mættum mjög klárir til leiks, frábærlega undirbúnir, skiluðum rosalega góðri vinnu og það er alls ekki sjálfsagt að halda ÍBV í 19 mörkum á þeirra heimavelli. Dagur var heitur hjá þeim og eina stóra vandamálið okkar, það eru mikil gæði í honum og áttum við því í vandræðum með hann. Við mættum klárir og með gott plan, við vorum í hörkugír og með virkilega gott lið.“

Einhverjir myndu segja að vörn og markvarsla hefðu unnið þennan leik, getur Björgvin verið sammála því?

„Ég get klárlega verið sammála því, ég er hluti af vörninni og það komu þarna fjórir eða fimm boltar sem voru auðveldir fyrir mig, svo komu extra boltarnir líka. Þetta var rosalega þétt og það er þægilegt að vera fyrir aftan þetta, þegar þú sérð svona vinnu fyrir framan þig þá er auðveldara að vera fyrir aftan og verja sína bolta,“ sagði Björgvin sem varði sína bolta og gott betur.

Haukar náðu fimmtán mínútna kafla í leiknum þar sem þeir héldu hreinu, undir lok fyrri hálfleiks, og var það lykillinn að sigrinum.

„Það var rosalega mikill fókus í vörninni, það er búið að vera mikið álag á öllum núna og allir að burðast með það. Svar okkar við því er að gefa í, hita betur upp og vera extra klárir í kvöld. Við skiluðum sigri í hús og förum inn í pásuna með bros á vör.“

Haukar eru efstir í deildinni og hafa verið nokkuð stöðugir á tímabilinu.

„Við erum ánægðir með frammistöðuna hingað til en þessir punktar sem við töpuðum svíða, þetta er erfið deild og erfiðir leikir, margir leikir á fáum dögum sem gerir þetta flóknara. Við missum tvo mikilvæga leikmenn út sem hafa verið að spila stórt hlutverk, það skipti okkur ekki máli í dag sem betur fer og það er vegna þess að við erum með stóran og breiðan hóp.“

Markaskor gestanna var dreift í dag og margir að koma marki á töfluna, Björgvin telur það gera liðið hættulegra.

„Ég held að það geri okkur hættulegri, það er erfiðara að stútera okkur og erfiðara að finna lausnir. Við erum með svo mikið af góðum leikmönnum og mikið af hæfileikum, við erum með þéttan hóp. Við þurfum samt alltaf að spila vel og halda okkur meiðslafríum, dreifa álaginu og það gefur okkur aukna orku inn í leikina.“

Gestirnir lágu aftarlega í vörninni og leyfðu Eyjamönnum að skjóta utan af velli, Björgvin varði flesta þá bolta sem rötuðu á markið.

„Það er ekkert launungarmál að það vantar leikmenn hjá þeim sem eru hættulegir skotmenn, það vantar Ásgeir sem er stór og mikill skotmaður, það vantar Fannar sem er mikil ógn af og Siddi er að koma til baka. Mér fannst við þó vera framar en mörg lið, við forvinnum línumanninn vel og erum ekki pödduflatir. Við erum alveg að spila þétta vörn og þótt hún sé passív þá getum við leyft okkur það því við erum með svo hávaxið lið inni á miðjunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert