„Allir í sömu súpunni“

„Það taka þessu allir bara og sýna þessu skilning. Það eru auðvitað allir í sömu súpunni,“ segir Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir, aðstoðarskólameistari Borgarholtsskóla. Þar mæta einungis 500 af 1400 nemendum skólans þessa dagana og þeir sem koma fá afhentar grímur við innganginn.  

Mælst er til þess að nemendur í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu beri grímur og í morgun fékk skólinn sendar grímur frá Landspítalanum til dreifingar. Ráðstöfunin er samkvæmt tilmælum sóttvarnalæknis sem Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, samþykkti.

Í myndskeiðinu er kíkt í leiklistartíma í skólanum í morgun þar sem nemendur voru í upplestri. Þær Sunneva Sól og Halldóra Kristín eru nemendur á fyrsta ári í skólanum og þær eru nokkuð brattar þrátt fyrir að framhaldsskólaganga þeirra fari svo óvenjulega af stað. „Þetta er mjög óþægilegt, sérstaklega í leiklistarstofunni,“ segir Halldóra Kristín um grímunotkunina.

Ásta Laufey segir að mikil áhersla hafi verið lögð á að hefja skólastarfið á réttum tíma í haust til þess að geta undirbúið nýnema sem best fyrir þá stöðu sem nú er komin upp. Þeir fengu að mæta í skólann á meðan þeir sem eldri eru þurftu að vera í fjarnámi. 

„Flestallir nemar eru komnir í fjarnám aftur, fyrir utan nemendur sem eru í verklegum áföngum. Það eru þá nemendur sem eru í málmiðngreinu, bíliðngreinum og í listnámi. Auk þess eru sérnámsnemendur hér í skólanum,“ segir Ásta Laufey en í síðustu viku átti að færa kennslu í eðlilegra horf þegar ný bylgja faraldurs kórónuveirunnar gaus upp og setti þær áætlanir í uppnám. 

Starfslið skólanna hefur þurft að bregðast við nýjum aðstæðum með misjöfnum hætti. Dæmi eru um að skólar hafi beðið nemendur að vera heima í dag og á morgun og sækja tíma í gegnum netið á meðan verið er að útfæra frekari viðbrögð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert