Viljum vinna fyrir okkur, ekki til að eyðileggja drauma City

Bruno Fernandes.
Bruno Fernandes. AFP/Paul Ellis

Bruno Fernandes, miðjumaður Manchester United, segir leikmenn liðsins ekki velta sér upp úr því að hafi það betur gegn Manchester City í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu geri það út um möguleika síðarnefnda liðsins á að vinna eftirsótta þrennu á tímabilinu.

Eina liðið sem hefur unnið þrennu sem inniheldur ensku úrvalsdeildina, bikarkeppnina og Meistaradeild Evrópu er einmitt Man. United. Það gerði liðið árið 1999 undir stjórn Sir Alex Fergusons.

Þar sem Man. City á einnig fyrir höndum úrslitaleik í Meistaradeild Evrópu getur liðið afrekað það sama og nágrannar sínir gerðu fyrir 24 árum.

„Okkur er kunnugt um þetta. Við vitum af þessu. Við þekkjum sögu félagsins okkar og að stuðningsmenn okkar vilji ekki að City nái að afreka þetta.

En fyrir okkur snýst þetta um að lyfta bikar. Mikilvægið er fólgið í því að vinna annan bikar og sjá þannig til þess að við ljúkum tímabilinu á sem bestan hátt.

Við vitum að ef við vinnum bikarinn er afleiðingin sú að Man. City á ekki lengur möguleika á þrennunni.

En út frá sjónarhóli leikmanna snýst þetta einungis um að vinna leikinn því við viljum vinna bikar fyrir okkur sjálfa, félagið og stuðningsmennina. Það er allt og sumt,“ sagði Fernandes á blaðamannafundi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert