Fíflaði þær sænsku upp úr skónum

Hallbera Guðný Gísladóttir í landsleik Íslands og Lettlands á dögunum.
Hallbera Guðný Gísladóttir í landsleik Íslands og Lettlands á dögunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Stemningin er virkilega góð og það er hálfgerður æfingabúðabragur yfir þessu þar sem við erum búnar að vera úti núna í frekar langan tíma,“ sagði Hallbera Guðný Gísladóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is í dag.

Íslenska liðið mætir Svíþjóð í undankeppni EM á Ullevi-vellinum í Gautaborg á morgun en Ísland er með 13 stig í öðru sæti F-riðils á meðan Svíþjóð er í efsta sætinu með 16 stig en íslenska liðið á leik til góða á það sænska.

„Það eru flestir vel gíraðir í leikinn á morgun og tilbúnir í slaginn. Vissulega var það óþægilegt þegar hlé var gert á mótinu heima og við þurftum að fara aftur í hálfgerðar undirbúningstímabilsæfingar. Það er ekki ákjósanlegt fyrir svona stóran leik en sem betur fer gat KSÍ farið með okkur fyrr út til Svíþjóðar.

Það var gott að ná hópnum öllum saman, æfingarnar hafa gengið virkilega vel, og þegar öllu er á botninn hvolft er bara flott að hafa verið í smá búbblu svona fyrir leikinn á morgun. Ég á ekki von á því að þetta hlé heima muni hafa mikil áhrif á okkur og við eigum að vera orðnar það rútíneraðar að þetta á ekki að skipta miklu máli, þótt það hefði auðvitað verið betra ef við værum allar að spila af fullum krafti,“ sagði Hallbera sem á að baki 114 A-landsleiki.

Elín Metta Jensen og Jonna Andersson eigast við í leik …
Elín Metta Jensen og Jonna Andersson eigast við í leik liðanna á Laugardalsvelli 22. september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svíarnir svipaðir að styrkleika

Hallbera hefur mætt sænska liðinu sjö sinnum frá árinu 2011 en hún var í byrjunarliði Íslands sem tapaði 4:0-fyrir Svíum á Örjans Vall í Halmstad á EM í Svíþjóð  sumarið 2013.

„Mér finnst þetta sænska lið alltaf frekar svipað að styrkleika. Þær eru alltaf vel skipulagðar og halda boltanum vel. Þá fær það inn nýjan framherja og bakvörð, geri ég ráð fyrir, frá leiknum heima á Laugardalsvelli og ég geri því ráð fyrir svipuðum leik og heima.

Uppleggið þeirra er oftast það sama og það er okkur til happs að við þekkjum þessa leikmenn ágætlega enda spila flestar þeirra í Svíþjóð og að því leytinu til hentar það okkur ágætlega að spila gegn sænska liðinu.“

Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir fer yfir málin með leikmönnum liðsins …
Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir fer yfir málin með leikmönnum liðsins gegn Svíum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gefa liðinu aðra vídd

Aldamótabörnin í íslenska liðinu hafa stolið senunni að undanförnu en þær Alexandra Jóhannsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir voru allar í byrjunarliðinu gegn Svíþjóð hér heima í september þar sem liðin gerðu 1:1-jafntefli.

„Maður hugsaði alveg fyrir leikinn hvort það væri eitthvert stress í gangi eða annað í þeim dúr. Þær sýndu engin veikleikamerki og það var ekki eins og þetta væri einhverjir nýliðar að spila sína fyrstu landsleiki.

Ég var að horfa á leikinn heima aftur í gær og Karólína Lea var að taka öfug skæri og fífla þær upp úr skónum. Þær voru algjörir töffarar og ég á von á því að þær haldi áfram á sömu braut og taki næstu skref með landsliðinu.

Ég er virkilega spennt að sjá þær á morgun og þær gefa okkur nýja vídd ef svo má segja. Við getum spilað betri hápressu með þær innanborðs sem dæmi og þetta eru virkilega spennandi leikmenn,“ bætti Hallbera við.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir var frábær gegn bronsliði HM 2019.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir var frábær gegn bronsliði HM 2019. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert