ÍBV valtaði yfir Aftureldingu í Eyjum

Lina Cardell skorar eitt af 10 mörkum sínum í dag.
Lina Cardell skorar eitt af 10 mörkum sínum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eyjakonur unnu virkilega öruggan sigur á Aftureldingu í 2. umferð Olís deildar kvenna í dag er liðin áttust við í Vestmannaeyjum. Gestrisni heimakvenna var lítil inni á vellinum en þær tóku góða forystu snemma í leiknum og létu hana aldrei af hendi. Lokatölur 35:20 í virkilega ójöfnum leik.

Ólöf Marín Hlynsdóttir endaði markahæst gestanna með sjö mörk og þær Harpa Valey Gylfadóttir og Lina Cardell voru markahæstar hjá ÍBV með 11 og 10 mörk.

Eyjakonur voru miklu betri í fyrri hálfleik og leiddu að honum loknum 21:11 en hornamenn liðsins voru með 11 mörk í fyrri hálfleik, Lina og Harpa Valey. Hraðaupphlaup voru nokkuð tíð en þess utan var vörn Aftureldingar einnig mjög opin fyrir hornafærum og markvarsla liðsins lítil.

Gestirnir áttu nokkrar fínar sóknir og var Ólöf Marín allt í öllu hjá gestunum, hún skoraði fjögur mörk í fyrri hálfleik og bar sóknarleik liðsins uppi. Tori Lynn Gísladóttir varði fjögur skot í markinu í fyrri hálfleik en Marta Wawrzynkowska gerði tvöfalt betur í marki heimakvenna.

Heimakonur spiluðu með sitt sterkasta lið inni á vellinum allan fyrri hálfleikinn fyrir utan nokkrar mínútur, U-lið ÍBV leikur einnig leik í kvöld og skýrir það mögulega af hverju rótering liðsins var svo lítil í fyrri hálfleik.

Leikurinn var áfram auðveldur í seinni hálfleik fyrir heimakonur en Erla Rós Sigmarsdóttir minnti á sig í markinu en hún sneri aftur á handboltavöllinn í ár, eftir stutta fjarveru. Hún spilaði seinni hálfleikinn og varði 10 skot í markinu. Susan Barinas varði vel í marki gestanna í seinni hálfleik, alls sjö skot af þeim 21 sem hún fékk á sig.

Á lokakaflanum var ekki beint spilaður fallegur handbolti en mikið var um mistök hjá liðunum, úrslit leiksins löngu ráðin og því skrýtnar lokamínútur. Eyjakonur verðskuldaðir sigurvegarar.

Elísa Elíasdóttir í leiknum í dag.
Elísa Elíasdóttir í leiknum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
ÍBV 35:20 Afturelding opna loka
60. mín. Bríet Ómarsdóttir (ÍBV) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert