Segir Skúla hafa sagt dagforeldra óþarfa 2023

Skúli Helgason var formaður Skóla- og frístundaráðs.
Skúli Helgason var formaður Skóla- og frístundaráðs. Samsett mynd

Helsta ástæða þess að dagforeldum hefur fækkað jafnt ört og raun ber vitni í Reykjavík er tilkynning frá Skúla Helgasyni, fyrrverandi formanni skóla og frístundaráðs, á hverfafundi í Vindheimum í febrúar 2019 með dagforeldrum að þeir yrðu óþarfir árið 2023 þar sem á þeim tíma ættu öll börn á yfir 12 mánaða aldri að vera komin með pláss á leikskóla.

Þetta segir Halldóra Björk Þórarinsdóttir, formaður Barnsins, félags dagforeldra í Reykjavík. 

„Það var haldinn fundur þar sem Skúli Helgason árið 2019 sagði við okkur að árið 2023 yrði öll börn komin inn á leikskóla og því engin þörf á dagforeldrum,“ segir Halldóra Björk. Hún segir að í kjölfarið hafi greiðslur með börnum hjá dagforeldrum ekki haldist í verðlag. 

Á fundinum komu fram áform um að öll börn 12 mánaða og eldri muni eiga kost á leikskólaplássi í borgarreknum skólum árið 2023.

Halldóra Björk Þórarinsdóttir.
Halldóra Björk Þórarinsdóttir.

Eins og fram hefur komið voru árið 2014  198 dag­for­eldrar starfandi í Reykjavík, á árinu 2022 voru þeir 98 en núna, í mars 2023, eru 86 dagforeldrar skráðir í Reykjavík. 

„Ástæða fækkunar er slæmt umtal frá borginni. Hjá þeim er aldrei minnst á dagforeldra. Það breytist svo allt í einu núna þegar borgin þarf á okkur að halda,“ segir Halldóra. Vísar hún þar til orða Helga Grímssonar í samtali við mbl.is um að til standi að styrkja dagforeldrakerfið

Tölur um meðalaldur barna við inngöngu í leikskóla Reykjavíkurborgar.
Tölur um meðalaldur barna við inngöngu í leikskóla Reykjavíkurborgar.

Frá 2019 hefur aldur innskráðra barna hjá leikskólum á vegum borgarinnar haldist nær óbreyttur eða 20,1 mánuður að því er fram kemur í svari skóla og frístundasviðs við fyrirspurn frá Sjálfstæðisflokki um aldur innskráðra barna á leikskólum. Hefur meðalaldur haldist nær óbreyttur frá árinu 2019.

Til samanburðar var meðalaldur við inngöngu á sjálfstætt starfandi leikskólum 17 mánuðir árið 2022.  

Halldóra segir að kjölfar þessara skilaboða frá stjórnmálamanni hafi margir dagforeldrar sett sér markmið um að hætta starfi sem dagforeldri. „Þó ég sé enn í starfi núna þá setti ég mér þriggja ára plan um að hætta sem dagforeldri eftir fundinn. Maðurinn minn starfaði þá með mér en hann hætti strax eftir þetta,“  segir Halldóra. 

Hún segir að áhugaleysi málaflokksins hafi verið algjört eftir að meirihlutinn setti sér markmið um að brúa bil orfofs og leikskóla í gegnum leikskóla borgarinnar. „Við höfum fengið þau skilaboð ítrekað að frá stjórnmálamönnum að okkar sé ekki þörf.“ 

Ekki náðist í Skúla við vinnslu fréttarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert