„Þurfum að sýna á vellinum hvað við getum“

Guðmundur Þ. Guðmundsson
Guðmundur Þ. Guðmundsson AFP

„Við höfum enga ástæðu til annars en að fara með góða tilfinningu inn í mótið,“ segir Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari en Ísland mun hefja leik í lokakeppni EM karla í handknattleik í Búdapest í kvöld. 

„Það finnst mér að við eigum að gera en erum meðvitaðir um að til að vinna Portúgal þá þarftu að spila vel á öllum sviðum. Þetta er mjög gott lið. Það vantar einhverja leikmenn í þeirra lið og það vantar menn hjá okkur líka. Þeir eru hins vegar með gríðarlega mikla breidd. Ef þú skoðar liðið þá er Portúgal með þrjá frábæra línumenn þótt tvo aðra vanti. Þeir eiga bara marga frábæra línumenn. Bara sem dæmi og ég tel því ekki að þau forföll hafi mikil áhrif,“ sagði Guðmundur þegar mbl.is ræddi við hann á miðvikudaginn og hann bendir á að samæfingin sé mjög mikil hjá landsliðsmönnunum sem leika með Porto í Meistaradeildinni. 

„Í hópnum eru átta leikmenn sem leika saman hjá Porto og hafa gert árum saman. Það hjálpar þeim auðvitað í landsliðinu. Þeir spila mikið sjö á móti sex hjá Porto og gera það mjög vel. Portúgal hefur haft ákveðið forskot á mörg önnur landslið hvað það varðar að það eru svo margir í sama félagsliðinu. Þetta hafa stundum verið tíu til ellefu leikmenn.“

Ísland mætti Portúgal í fjórum mótsleikjum frá janúar 2020 og þar til í janúar 2021. Markvörðurinn Al­fredo Quint­ana sem lést í fyrra lék þá mest í markinu hjá Portúgal. Hvernig hafa markverðirnir sem tóku hans stöðu staðið sig? 

„Þeir hafa bara staðið sig býsna vel. Ég veit ekki hverjum þeir tefla fram en þeir eiga til dæmis frambærilegan markvörð sem heitir Capteville. Þeir munu auðvitað sakna Quintana en Capteville er góður markvörður. Þetta er óvissuþáttur og við veltum okkur ekki upp úr því. Við erum meira að greina þeirra leiki og skoða hvar þeirra styrkleikar og veikleikar liggja. Það skiptir mig engu máli hver er svo í markinu á endanum,“ sagði Guðmundur.

Guðmundur og hans menn hafa nýtt æfingatörnina vel.
Guðmundur og hans menn hafa nýtt æfingatörnina vel. mbl.is/Kristinn Magnússon

Komið hefur fram hjá Guðmuni og mörgum öðrum landsliðsmönnum að andinn í landsliðinu sé einstaklega góður og menn sé hungraðir í að ná árangur. Finnur Guðmundur mun á stemningunni í hópnum miðað við áður? 

„Það er kannski rétt að ég skýri þetta aðeins út. Andinn var ekki slæmur í fyrra en þá vorum við bara að glíma við svo mörg vandamál. Aron var meiddur, Alexander var kýldur í leik gegn Portúgal, Haukar Þrastar var meiddur og Janus Daði gat ekki beitt sér vegna axlarmeiðsla. Við lentum í alls kyns hremmingjum í aðdraganda HM í fyrra og á HM. Okkur vantar Hauk, Hákon Daða og Svein en þar fyrir utan eru allir heilir. Okkur hefur gengið tiltölulega vel á æfingum og það hefur margt gengið upp. Þetta eru hins vegar æfingar en ekki leikur.

Prófið verður gegn Portúgal.Við þurfum að sýna inni á vellinum hvað við getum. Það er gott að andinn sé góður og gott að vera bjartsýnn. Það vinnur ekki leiki en það hjálpar til og eykur ekki likurnar.  Við þurfum að fara inn á völlinn og vinna þessa andstæðinga okkar í þessum riðli sem eru allt góð lið. Við höfum enga ástæðu til annars en að fara með góða tilfinningu inn í mótið,“ sagði Guðmundur ennfremur við mbl.is í Búdapest. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert