Stiller hitti Selenskí

Bandaríski leikarinn Ben Stiller segir aðstæður í stríðshrjáðri Úkraínu átakanlegar og á stærri skala en í nokkurri kvikmynd.

Stiller hitti forseta Úkraínu, Volodimír Selenskí, í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, en Stiller gegnir stöðu góðgerðarsendiherra hjá flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR).

Leikarinn sagði Selenskí að hann væri hetjan hans og hrósaði forsetanum fyrir fyrri feril hans sem leikari.

Selenskí býður Stiller velkominn.
Selenskí býður Stiller velkominn. AFP

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég kem á átakasvæði,“ sagði Stiller við fréttastofu BBC.

Finnur ekki alls staðar fyrir átökunum

„En þetta er mjög skrýtið vegna þess að þegar maður keyrir inn í landið í vesturhlutanum finnur maður ekki fyrir átökunum,“ sagði Stiller og bætti við:

„Og svo þegar þú kemst nær og nær Kænugarði, inn í austurhluta landsins, sér maður vegatálmana og eyðilegginguna, sem er virkilega átakanlegt þegar þú hefur ekki áður verið í návígi við slíkt.“

Þá sagði hann fólk í Kænugarði reyna að halda áfram með daglegt líf en það viti að stríðið gæti aftur færst nær.

„Ég er leikari, svo það fyrsta sem ég hugsa er: „Ó, þetta lítur út eins og kvikmynd.“ En hér er þetta á mikið stærri skala og þetta er raunverulegt, sem gerir þetta mjög sársaukafullt.“

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert