Netanjahú fyrir dómara

Mótmælt var fyrir utan dómshúsið í Jerúsalem í morgun.
Mótmælt var fyrir utan dómshúsið í Jerúsalem í morgun. AFP

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, kom fyrir dómara í Jerúsalem í morgun þegar málflutningur hófst í máli ákæruvaldsins gegn honum. Netanjahú er ákærður fyrir spillingu í embætti, mútur og svik.

Í opnunarræðu sinni sagði saksóknari að Netanjahú hefði nýtt völd sín með ólöglegum hætti og sóst eftir vinagreiðum hjá stjórnendum stórra fjölmiðlafyrirtækja.

Ráðherr­ann er sakaður um að hafa beðið út­gef­anda ísra­elsks dag­blaðs, Yediot Aharonot, um já­kvæða um­fjöll­un gegn því að hann myndi hjálpa til við að hindra út­gáfu keppi­naut­ar­dag­blaðs. Auk þess er for­sæt­is­ráðherr­ann sakaður um að hafa þegið gjaf­ir sem nema rúm­um 10 millj­ón­um ís­lenskra króna frá Hollywood-auðjöfr­in­um Arnon Milch­an og öðrum stuðnings­mönn­um. 

Rúmt ár er liðið frá því Netanjahú var ákærður, en réttarhöldunum hefur ítrekað verið frestað vegna kórónuveirufaraldursins.

Réttarhöldin fara fram á sama tíma og Netanjahú freistar þess að mynda nýja ríkisstjórn til að tryggja áframhaldandi setu sína á stóli forsætisráðherra, sem nú hefur varað í tólf ár. Fjórðu kosningarnar á tveimur árum voru haldnar í Ísrael í síðasta mánuði en enginn stóð uppi sem skýr sigurvegari eftir þær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert