Tekur hann Hollending með sér til Liverpool?

Lutsharel Geertruida með boltann í leik með Feyenoord gegn Ajax.
Lutsharel Geertruida með boltann í leik með Feyenoord gegn Ajax. AFP/Pieter Stam de Jonge

Arne Slot verður að öllum líkindum næsti knattspyrnustjóri enska félagsins Liverpool og samkvæmt hollenska blaðinu De Telegraaf er mjög líklegt að hann taki með sér þangað einn af núverandi lærisveinum sínum hjá Feyenoord.

Það er varnartengiliðurinn eða varnarmaðurinn Lutsharel Geertruida, sem er 23 ára gamall og er talinn kosta um 25 milljónir punda en hann á eitt ár eftir af samningi sínum við Feyenoord.

Geertruida var samkvæmt De Telegraaf á meðal áhorfenda á leik West Ham og Liverpool í Lundúnum á laugardaginn og er sagður afar spenntur fyrir því að ganga til liðs við enska félagið.

Hann hefur skorað 22 mörk og átt tíu stoðsendingar í 195 mótsleikjum fyrir Feyenoord og er kominn með sjö A-landsleiki fyrir Holland eftir að hafa leikið með öllum yngri landsliðum þjóðar sinnar. 

Geertruida hefur verið í röðum Feyenoord í tólf ár, eða frá ellefu ára aldri. Hann getur leikið allar stöðurnar í vörninni og sem varnartengiliður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert