Tillögur um tilslakanir háðar landamærum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist telja heppilegast að víkka út skilgreiningu sóttvarnahúsa þannig að heimilt sé að skylda fólk til að verja sóttkví þar, hvort sem það er vegna Covid-19 eða annarra smitsjúkdóma. Verði ekki hægt að koma slíkum breytingum í gegnum þingið þurfi að leita annarra leiða til að „stoppa upp í gat“ á landamærum.

Slíkt gæti falið í sér aukið eftirlit með fólki í sóttkví eða harðari sektarákvæði, en önnur úrræði séu einnig til skoðunar.

Á upplýsingafundi almannavarna í dag sagði Þórólfur að úrskurður héraðsdóms um að ekki væri lagagrundvöllur til að skylda fólk til að dvelja í sóttvarnahúsum gæti sett sóttvarnir í uppnám. „Við höfum séð þessi smit sleppa inn á landamærunum og ef við náum ekki í gegn aðgerðum til að lágmarka smithættu þar hljótum við að spyrja hvort það sé óhætt að slaka á takmörkunum,“ segir Þórólfur og vísar til takmarkana innanlands.

Núgildandi reglugerð um samkomutakmarkanir innanlands var sett í flýti 24. mars og gildir til 15. apríl. Þórólfur segir ótímabært að segja til um það á þessari stundu hvort hann leggi til tilslakanir á takmörkunum þá. „Á meðan við sjáum enn smit utan sóttkvíar er erfitt að segja til um það,“ segir hann og bætir við að landamæraaðgerðirnar skipti þar máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert