Sektaður um 158 milljónir vegna skattalagabrots

Maðurinn játaði sök í málinu.
Maðurinn játaði sök í málinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir meiriháttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum sem framkvæmdastjóri og stjórnarformaður einkahlutafélags. Þá hefur honum verið gert að greiða 158 milljóna króna sekt í ríkissjóð.

Í ákærunni var manninum m.a. gert að sök að hafa staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum fyrir nokkur uppgjörstímabil árin 2016 og 2017, að hafa sleppt því að skila virðisaukaskattskýrslum fyrir uppgjörstímabil árin 2016 og 2017, og fyrir að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var eða innheimta bar í rekstri einkahlutafélagsins, vegna sömu uppgjörstímabila. Nam fjárhæðin alls 64.738.843, að því er fram kemur í ákærunni.

Þá var hann einnig ákærður fyrir að hafa ekki tilkynnt virðisaukaskattskylda starfsemi einkahlutafélagsins sem hann rak, til ríkisskattstjóra fyrr en í júní árið 2016 þótt slík starfsemi hefði verið í félaginu frá því í byrjun febrúar það ár. Auk þess sem hann var ákærður brot á lögum um bókhald.

Játaði sök

Maðurinn játaði sök í málinu og var hann sakfelldur fyrir alla ákæruliði. 

Við ákvörðun refsingar var litið til þes að hann hafði ekki áður sætt refsingu. Jafnframt var litið til þess að hann játaði brot sín fyrir dóminum auk þess sem nokkuð langt er um liðið frá því að þau voru framin.

Var hann dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi og honum gert að greiða 158 milljónir í sekt til ríkissjóðs. Greiði hann ekki sektina innan fjögurra vikna frá birtingu dóms skal hann sæta fangelsi í 360 daga.

Þá var honum gert að greiða allan sakarkostnað málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert