Vona að hann læri af frænda sínum

Jóhannes Kristinn Bjarnason (fremst t.v.) og faðir hans Bjarni Guðjónsson …
Jóhannes Kristinn Bjarnason (fremst t.v.) og faðir hans Bjarni Guðjónsson fagna Íslandsmeistaratitli KR árið 2015. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Jóhannes Kristinn Bjarnason gekk á dögunum í raðir sænska knattspyrnuliðsins Norrköping. Faðir hans, Bjarni Guðjónsson, tók skömmu áður við stjórnartaumum U19 ára liðs félagsins og segist hann vonast til þess að sonur sinn læri af náfrænda sínum, Ísaki Bergmanni Jóhannessyni.

Jóhannes, sem var keyptur frá uppeldisfélagi sínu KR, er nýorðinn 16 ára gamall og hefur verið borinn saman við Ísak Bergmann, sem verður 18 ára í mánuðinum, og festi sig í sessi sem lykilmaður Norrköping á síðasta tímabili, aðeins 17 ára gamall.

„Þeir eru auðvitað ekki sama manneskjan. Ég hef aldrei séð neinn sem er jafn einbeittur og Ísak og ég vonast til þess að Jóhannes læri af frænda sínum og öðrum leikmönnum liðsins. Hérna fær hann tækifæri sem er undir honum komið að grípa,“ sagði Bjarni í samtali við NT-sporten, íþróttahluta staðarblaðsins Norrköpings Tidningar.

Hann lýsti syni sínum nánar og hvernig leikmaður hann væri. „Síðan hann var lítill hefur hann mikið spilað með eldri leikmönnum. Hann getur spilað margar stöður og er með mikla hlaupagetu, getur hlaupið mikið fram og til baka. Hann er með gott auga fyrir sendingum og góðan fótboltaheila.

Endar sem miðjumaður

Jóhannes spilaði sína fyrstu meistaraflokksleiki með KR síðastliðið sumar, þegar hann kom inn á og skoraði í 8:1 bikarsigri gegn Vængjum Júpíters og kom inn á í 2:0 sigri gegn Breiðabliki í Pepsi Max-deildinni. Í báðum leikjunum kom hann inn á í stöðu hægri kantmanns.

Ég held að hann verði á endanum miðjumaður en til að byrja með býst ég við því að hann spili á kantinum, sem getur hentað ungum spilurum vel þegar þeir eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokksbolta,“ sagði Bjarni að lokum í samtali við NT-sporten.

Mikil fjölskyldutengsl eru í herbúðum Norrköping. Sem áður segir eru Jóhannes Kristinn og Ísak Bergmann náfrændur, synir bræðranna Bjarna og Jóhannesar Karls Guðjónssona.

Þá eru Ísak Bergmann og Oliver Stefánsson, leikmaður Norrköping, einnig náfrændur, synir systranna Jófríðar Maríu og Magneu Guðlaugsdætra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert