Bjarki og Kristján öflugir í Evrópudeildinni

Bjarki Már Elísson skoraði 7 mörk gegn Medvedi í kvöld.
Bjarki Már Elísson skoraði 7 mörk gegn Medvedi í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarki Már Elísson og Kristján Örn Kristjánsson landsliðsmenn í handknattleik létu mikið að sér kveða með liðum sínum, Lemgo og Aix, í Evrópudeildinni í kvöld.

Bjarki skoraði sjö mörk fyrir Lemgo sem sigraði Medvedi frá Rússlandi, 30:27, á heimavelli eftir að staðan var 16:16 í hálfleik. Lemgo komst með sigrinum í efsta sæti B-riðils með 8 stig úr fimm leikjum.

GOG frá Danmörku og Nantes frá Frakklandi eru næst með 7 stig hvort eftir jafnteflisleik þeirra í kvöld, 29:29. Viktor Gísli Hallgrímsson varði þrjú af tólf skotum sem hann fékk á sig í marki GOG.

Kristján Örn skoraði sjö mörk fyrir Aix sem mátti sætta sig við tap gegn Sävehof í Svíþjóð, 33:31. Aix hefur enn ekki náð að vinna leik og er með eitt stig eftir fimm leiki í C-riðli. Sävehof er hinsvegar efst með 6 stig en Nexe frá Króatíu er með 6 stig og Magdeburg 5 stig og bæði liðin eiga eftir að spila í kvöld.

Þá vann svissneska liðið Kadetten, undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar, heimasigur gegn AEK frá Grikklandi, 30:26. Þetta er fyrsti sigur Kadetten sem er með fjögur stig eftir fimm leiki í D-riðli keppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert