Blaðamaður myrtur í Mexíkó

Vopnbúnir lögreglumenn í Mexíkó.
Vopnbúnir lögreglumenn í Mexíkó. AFP

Blaðamaður var skotinn til bana í suðurhluta Mexíkós í dag. Er þetta í annað skipti á árinu sem blaðamaður er myrtur þar í landi, en Mexíkó er eitt hættulegasta land heims fyrir blaðamenn.

Gustavo Sanchez, ritstjóri vefmiðils sem ítrekað hafði fjallað um störf lögreglunnar þar í landi, var skotinn til bana á ferð sinni á mótorhjóli um Oaxaca-fylki í Mexíkó. Ekki er vitað hverjir árásarmennirnir eru. Þetta staðfesta lögregluyfirvöld í fylkinu.

Ekki er þetta í fyrsta sinn sem Sanchez hefur orðið fyrir árás, en í júlí á síðasta ári var reynt að ráða hann af dögum, en hann lifði þá árás af. „Hann tilkynnti árásina síðasta sumar til lögregluyfirvalda í Oaxaca, en lögreglan rannsakaði málið ekki nánar,“ segir Blabina Flores, talsmaður samtaka blaðamanna án landamæra (e. RSF).

Samtökin setja Mexíkó í sama flokk og Sýrland og Afganistan á lista yfir hættulegustu lönd heims fyrir blaðamenn að búa í. Frá árinu 2000 hafa yfir 100 blaðamenn verið myrtir vegna starfa sinna, en umfjöllun blaðamanna í Mexíkó um spillingu í stjórnkerfinu og starfsemi eiturlyfjahringja getur verið dauðans alvara.

Frá Oaxaca.
Frá Oaxaca. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert