HK á toppinn eftir endurkomu

Úr leik HK og FH á síðasta tímabili.
Úr leik HK og FH á síðasta tímabili. mbl.is/Kristinn Magnússon

HK vann góðan 4:2-endurkomusigur á nýliðum Fjölnis í hörkuleik í 1. deild kvenna í knattspyrnu, Lengjudeildinni, í Kórnum í kvöld. María Lena Ásgeirsdóttir og Sara Montoro skoruðu báðar tvennu fyrir sín lið.

María Lena kom HK yfir strax á áttundu mínútu áður en Montoro jafnaði metin strax í næstu sókn.

Í síðari hálfleik bætti Montoro við öðru marki sínu og kom þannig Fjölniskonum yfir.

Þegar um stundarfjórðungur lifði leiks jafnaði María Lena hins vegar metin fyrir HK.

Ísabella Eva Aradóttir skoraði svo þriðja mark heimakvenna skömmu fyrir leikslok áður en Arna Sól Sævarsdóttir skoraði fjórða markið í uppbótartíma venjulegs leiktíma.

Með sigrinum er HK komið á topp 1. deildarinnar, að minnsta kosti um stund, þar sem liðið er með fullt hús stiga eftir tvo leiki.

Markaskorarar eru fengnir af Fótbolta.net.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert