Real Madríd vann stórslaginn

Sergio Busquets sækir að Karim Benzema í leiknum í dag.
Sergio Busquets sækir að Karim Benzema í leiknum í dag. AFP

Erkifjendurnir Barcelona og Real Madríd mættust á Nývangi í 6. umferð spænsku efstu deildarinnar í knattspyrnu í dag og voru það gestirnir frá höfuðborginni sem höfðu betur, 3:1.

Leikurinn hófst með látum er Federico Valverde kom Real yfir strax á fimmtu mínútu eftir frábæra stungusendingu frá Karim Benzema. Heimamenn voru þó snöggir að jafna metin, ungstirnið Ansu Fati skoraði þremur mínútum síðar eftir sendingu frá Jordi Alba.

Á 62. mínútu tók Real hins vegar aftur forystuna er fyrirliðinn Sergio Ramos skoraði úr vítaspyrnu eftir að Clement Lenglet reif í treyjuna hans inn í vítateig. Luka Modric innsiglaði svo sigur gestanna í uppbótartíma.

Real er þar með komið aftur á toppinn, er með 13 stig eftir sex leiki, en liðið tapaði óvænt gegn nýliðum Cadiz í síðustu umferð og voru vangaveltur um að stjórinn Zinedine Zidane væri valtur í sessi. Barcelona er sem stendur í 10. sæti, liðið er með sjö stig eftir fimm leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert