Carlo er yndisleg mannvera

Jürgen Klopp og Carlo Ancelotti á hliðarlínunni.
Jürgen Klopp og Carlo Ancelotti á hliðarlínunni. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool kveðst alls ekki undrandi á góðri byrjun Everton á keppnistímabilinu en grannliðin mætast í ensku úrvalsdeildinni á Goodison Park í hádeginu á laugardaginn.

Everton hefur unnið alla sjö leiki sína á tímabilinu, fjóra þeirra í úrvalsdeildinni þar sem liðið trónir á toppnum eftir fjórar umferðir, þremur stigum á eftir næstu liðum en eitt þeirra er einmitt Liverpool.

Klopp hrósaði kollega sínum, Carlo Ancelotti, á heimasíðu Liverpool í dag. „Þetta er topplið með toppstjóra. Ég hef aldrei farið leynt með álti mitt á Carlo Ancelotti. Ég gæti ekki borið meiri virðingu fyrir honum sem persónu og sem þjálfara. Hann er yndisleg mannvera, satt besta að segja, sagði Klopp.

„Ég vissi frá fyrsta degi þegar ég heyrði að hann væri á leið til Everton að nú væri harður keppinautur að mæta til leiks. Mér finnst þeir hafa staðið sig frábærlega á leikmannamarkaðnum í sumar. Þeir fundu nokkurn veginn þá leikmenn sem þeir þurftu til að styrkja lið sem var ansi gott fyrir. Nú vita þeir líka betur hvers Carlo krefst af þeim og það gerir þá ansi öfluga. Ég er engan veginn undrandi á gengi þeirra," sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert