Litlar breytingar komi á óvart

Páll Magnússon.
Páll Magnússon. mbl.is/RAX

Páll Magnússon, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og oddviti H-listans í Vestmannaeyjum, segist ánægður með fyrstu tölur í sveitarstjórnarkosningum í sveitarfélaginu. 

H-listinn heldur sínum þremur mönnum í sveitarstjórn samkvæmt fyrstu tölum og meirihluti H-lista og Eyjalista heldur. 

„Það sem kemur á óvart er kannski það að það hafi ekki orðið neinar breytingar, það eru nánast engar breytingar á fylgi flokkanna frá því 2018. Við hjá H-listanum getum mjög vel við unað, við erum með yfir þriðjung atkvæða og höldum þeim gríðarlega góða árangri sem við náðum fyrir fjórum árum,“ segir Páll í samtali við mbl.is. 

„Miðað við þessar tölur heldur meirihlutinn og okkar viðbrögð við því geta ekki verið annað en mjög góð,“ bætir Páll við. 

Er þannig útlit fyrir áframhaldandi samstarf H-lista og Eyjalista?

„Eðlilegast er þegar meirihluti bæjarbúa er búinn að lýsa yfir trausti á þennan meirihluta að þeir flokkar sem mynda hann tali fyrst saman. Ef að þetta verður lokaniðurstaðan er eðlilegt að það verði fyrsta skrefið,“ segir Páll. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert