Formúla 1

Perez á ráspól en heimsmeistarinn ræsir fimmtándi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sergio Perez verður á ráspól í dag.
Sergio Perez verður á ráspól í dag. Eric Alonso/Getty Images

Mexíkóski ökuþórinn Sergio Perez verður á ráspól þegar farið verður af stað í Sádí Arabíu í öðrum kappakstri tímabilsins í Formúlu 1 síðar í dag. Liðsfélagi hans hjá Red Bull, tvöfaldi heimsmeistarinn Max Verstappen, verður hins vegar fimmtándi í rásröðinni.

Perez ók hraðasta hringinn í þriðja hluta tímatökunnar í gær þegar hann kom í mark á tímanum 1:28,265, tæpum 0,2 sekúndum betri tíma en Charles Leclerc hjá Ferrari sem átti næst besta tímann.

Leclerc tekur hins vegar út tíu sæta refsingu þar sem liðið neyddist til að nota of marga varahluti og Leclerc ræsir því tólfti.

Gamla brýnið Fernandi Alonso á Aston Martin verður með Perez í fremstu rásröð og George Russell á Mercedes verður þriðji.

Þá hefur ríkjandi heimsmeistarinn Max Verstappen verk að vinna þar sem hann ræsir fimmtándi. Lengi vel leit út fyrir að Verstappen myndi ná að tryggja sér ráspólinn, en bíll hans bilaði í öðrum hluta tímatökunnar og hann komst því ekki áfram í þriðja hlutann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×