Nýir gígar geti myndast

Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Háskóla Íslands, á fundi dagsins.
Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Háskóla Íslands, á fundi dagsins. Ljósmynd/Almannavarnir

Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlis­fræðing­ur hjá Háskóla Íslands, segir að það sé mögulegt að nýir gígar muni myndast í Geldingadölum fyrir sunnan gígana sem nú eru. „Þetta er eitthvað sem þarf að forðast. Og þetta náttúrulega er kannski fyrst og fremst ábyrgð skipulagsaðila að sjá til þess að leiðir liggi á öruggum stöðum. En líka okkar allra að vera ekki á stöðum þar sem hætta er.“

Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

Magnús segir að ef ný sprunga opnist, t.d. ofan í Geldingadölum, byrji heitt gas og gufa að streyma upp og svo komi upp kvika. Sé fólk á mjög aflokuðum stað nærri geti það verið mjög óþægilegt og hætta getur skapast. Þess vegna þurfi að breyta gönguleiðinni að gosstöðvunum. Lendi fólk í slíkum aðstæðum þurfi það að forða sér til hliðanna eins fljótt og auðið er. „Þetta eru aðstæður sem við viljum ekki að fólk lendi í.“

Hann segir enn fremur, að þó að gosið sé fallegt og áhugavert þá verði menn að umgangast það af virðingu. Ætli fólk sér að fara nálægt hrauninu þá verði það að gerast með yfirveguðum hætti og það verður að vita nákvæmlega hvað það er að gera. „Ég held að við höfum ekki alltaf verið að gera það,“ sagði Magnús. 

Hraunrennsli á Fagradalsfjalli.
Hraunrennsli á Fagradalsfjalli. Kort/mbl.is

„Brattar hraunbrúnir, eins og eru núna, geta verið óstöðugar. Þá getur skyndilega hrunið úr þeim. Það var þannig sem eina banaslysið á Íslandi á 20. öld þar sem fólk varð undir gosefnum, það varð í Heklugosinu 1947 þegar Steinþór Sigurðsson jarðfræðingur varð fyrir hruni úr hraunbrúninni í Heklugosinu og lést. Og við skulum reyna að forðast það öll, að lenda í slíku.“

Magnús varaði einnig við hættunni á svokölluðu undanhlaupi. Þegar glóandi kvika brýst skyndilega fram úr hraunbrúninni. Hún geti farið mjög hratt.

Hvað varðar gashættu þá leggi mikið gas frá gígunum, eða um 75-80% þess gass sem nú mælist. Restin komi frá hrauninu. Sé vindur mikill á svæðinu þá blási hann gasinu í burtu en það sé þó ekki ávallt þannig. Ef það er ekki hvasst á svæðinu sé mikilvægt að fara ekki ofan í lægðir því þar geti safnast fyrir koldíoxíð sem sé lyktarlaust og ósýnilegt. Fari fólk ofan í slíkar lægðir geti það fallið í yfirlið og ekki hlaupið að því að bjarga því þaðan. Einnig þurfi að gæta sín á brennisteinsvetninu sem leggi frá svæðinu, þ.e. gasið sjálft, sem berst með vindinum. „Það þarf alltaf að nálgast gosið áveðurs. Vera alltaf með vindinn í bakið og á hraunið. Þá eru líkurnar á að þú lendir í þéttu gasi litlar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert