Anna setti heims- og Evrópumet

Helga Hlín Hákonardóttir (t.v.) og Anna Guðrún Halldórsdóttir (t.h.) með …
Helga Hlín Hákonardóttir (t.v.) og Anna Guðrún Halldórsdóttir (t.h.) með verðlaunapeningana sem þær unnu sér inn á mánudag. Skjáskot/Instagram

Anna Guðrún Halldórsdóttir vann Evrópumeistaramótið í ólympískum lyftingum í Alkmaar á mánudaginn og setti um leið nokkur glæsileg met, þar á meðal tvö heimsmet.

Anna Guðrún keppir í flokki 50 ára og eldri og setti heimsmet í snörun í 81 kílógramma flokki kvenna þegar hún lyfti 62 kílógrömmum. Auk þess jafnaði hún heimsmetið í jafnhendingu þegar hún lyfti 80 kílógrömmum en bætti um leið Evrópumetið í hennar aldurs- og þyngdarflokki um tvö kílógrömm.

Þetta skilaði henni 142 kílógrömmum samanlagt, sem þýðir að hún bætti Evrópumetið um fjögur kílógrömm og heimsmetið um tvö kílógrömm í samanlögðum árangri.

Anna Guðrún setti því tvö heimsmet og þrjú Evrópumet á fyrsta alþjóðlega móti sínu erlendis og voru allar sex lyftur hennar gildar 6/6.

Anna Guðrún hefur ekki keppt lengi í ólympískum lyftingum en tók hún þátt á sínu fyrsta móti haustið 2020 á haustmóti Lyftingasambands Íslands á Selfossi.

Þar lyfti hún 50 kílógrömmum í snörun og 68 kílógrömmum í jafnhendingu og var þannig með 118 kílógrömm í samanlagðan árangur. Það þýðir að Anna hefur bætt samanlagðan árangur sinn á móti um 24 kílógrömm á einu ári sem er eftirektarverður árangur.

Helga Hlín Hákonardóttir keppti einnig á mótinu í Alkmaar á mánudag og þrátt fyrir að hafa lent í vandræðum með báða lófa sína í upphitun, þar sem hún reif þá upp og blæddi mikið úr þeim, náði hún frábærum árangri í 59 kílógramma flokki 45 ára og eldri.

Hafnaði hún í öðru sæti eftir að hafa lyft 48 kílógrömmum í snörun og 65 kílógrömmum í jafnhendingu, sem gerði 113 kílógrömm í samanlögðum árangri.

Umfjöllunin er byggð á umfjöllun Lyftingasambands Íslands um árangur Önnu Guðrúnar og Helgu Hlínar, sem má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert