Leggst á bæn gegn Covid

Frans páfi í Péturskirkjunni í dag.
Frans páfi í Péturskirkjunni í dag. AFP

Frans páfi hóf í dag mánaðarlangt bænamaraþon til að biðja fyrir lokum kórónuveirufaraldursins. Fyrstu bænina flutti páfi í Péturskirkjunni í Róm frammi fyrir um 150 manns. 

Í bæninni ákallaði páfi Maríu mey og bað hana að uppljóma vísindamenn svo þeir mættu finna góðar lausnir í baráttunni við veiruna.

Bænirnar verða daglegt brauð út mánuðinn og verður þeim streymt klukkan 16 dag hvern frá ólíkum kaþólskum kirkjum um heim allan þar sem prestar í viðkomandi kirkjum munu leiða bæn. 

Páfi hefur verið duglegur að tjá sig í kórónuveirufaraldrinum, brýna trúbræður sína til góðra verka og stappa í þá stálinu. Þannig hefur hann hvatt fólk til að forðast ferðalög að nauðsynjalausu og beðið fyrir þeim sem eiga um sárt að binda af völdum veirunnar.

Frans páfi, sem er 84 ára, var bólusettur fyrir kórónuveirunni í upphafi árs en hann hefur hvatt fólk til bólusetningar og kallað það „stórhættulega afneitun“ að hafna bóluefni. Þá hefur hann vakið máls á mikilvægi þess að fátækari löndum heims sé tryggt nægt bóluefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert