Keppendur á Wimbledon fá ekki stig

Novak Djokovic mun keppa á Wimbledon-mótinu í sumar.
Novak Djokovic mun keppa á Wimbledon-mótinu í sumar. AFP/Tiziana Fabi

Árangur tennisleikara sem taka þátt á Wimbledon-mótinu í sumar mun ekki vinna þeim inn stig sem gildir fyrir heimslista karla og kvenna. ATP og WTA, leikmannasamtök atvinnukarla- og kvenna í tennis, tilkynntu um sameiginlega ákvörðun sína þar að lútandi í dag.

Ástæðan fyrir þessari ákvörðun ATP og WTA er sú ákvörðun skipuleggjenda Wimbledon-mótsins að meina keppendum frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi að keppa vegna innrásar Rússlands í Úkraínu, sem samtökunum þykir ekki tekin á jafnréttisgrundvelli.

„Það er með mikilli eftirsjá og trega sem við tökum þessa ákvörðun en við sjáum engan annan kost í stöðunni,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu ATP.

„Þetta var erfið ákvörðun. Afstaðan sem við erum að taka snýst um að vernda jöfn tækifæri sem WTA-leikmenn ættu að búa yfir til þess að keppa sem einstaklingar.

Ef við tökum ekki þessa afstöðu látum við lönd og leið grundvallarviðmið okkar og leyfum WTA að gefa fordæmi þess að styðja við mismunun sem byggir á þjóðerni á öðrum viðburðum í öðrum heimshlutum,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu WTA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert