Góð frammistaða dugði ekki til

Bríet Hinriksdóttir sækir að körfu Brno.
Bríet Hinriksdóttir sækir að körfu Brno. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bikarmeistarar kvenna í körfuknattleik úr Haukum léku vel gegn tékknesta liðinu KP Brno í Tékklandi í dag í L-riðli riðlakeppni Evrópubikarsins í dag. 

Þótt Haukar séu enn án Helenu Sverrisdóttur spilaði liðið jafnan leik gegn tékkneska liðinu en Brno náði þó að landa sigri 60:53. 

Hafnfirðingarnir byrjuðu geysilega vel og voru yfir 25:15 að loknum fyrsta leikhluta. Að loknum fyrri hálfleik var staðan 29:25 fyrir Hauka en lágt skor í öðrum leikhluta reyndist dýrt þegar uppi var staðið. 

Fyrir síðasta leikhlutann var tékkneska liðið þremur stigum yfir og jók muninn í síðasta leikhlutanum. 

Bríet Hinriksdóttir var mjög atkvæðamikil í dag og skoraði 18 stig. Var hún stigahæst en næst kom Lovísa Henningsdóttir með 8 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar. Tinna Guðrún Aolexandersdóttir skoraði 7 stig. Haiden Palmer lék vel fyrir liðið þótt hún hafi oft skorað meira. Tók 11 fráköst, gaf 6 stoðsendingar, stal boltanum fjórum sinnum og skoraði 5 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert