Gott að gera eitthvað erfitt líka

„Þó maður sé alveg hamraður oft á tíðum þá kemur maður oftast frekar flottur í mark,“ sagði Þorbergur Ingi Jónsson, einn fremsti langhlaupari landsins, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Þorbergur byrjaði að einbeita sér að langhlaupum árið 2015 en hann hefur fimm sinnum tekið þátt í Ultra-Trail du Mont-Blanc-langhlaupinu í Chamonix í Frakklandi, þrisvar í 101 kílómetra hlaupi með rúmlega 6.100 metra hækkun og tvívegis í 171 kílómetra hlaupi með rúmlega 10.400 metra hækkun. 

Hann náði sínum besta árangri í 101 kílómetra hlaupinu árið 2017 þegar hann hafnaði í 6. sjötta sæti og árið 2019 hafnaði hann í 25. sæti í 171 kílómetra hlaupinu.

„Maður er svo bara nokkuð góður í nokkrar mínútur en svo hefur maður líka lent í því að geta ekki staðið í lappirnar og fólk hefur þurft að bera mann upp á hótel,“ sagði Þorbergur.

„Það er öll orka farinn og þetta er í raun bara eins og það sé markmið hjá líkamanum að koma manni yfir marklínuna og síðan er hægt að taka út sársaukann,“ sagði Þorbergur meðal annars.

Viðtalið við Þorberg í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert