Lamdi sambýliskonu sína með kertastjaka

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.

Karlmaður á fertugsaldri, Björgvin Sigmar M. Ómarsson, hefur verið dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir stórfellt brot í nánu sambandi, tilraun til hnífstunguárásar og fjölmörg þjófnaðarbrot. Var maðurinn meðal annars fundinn sekur um að hafa veist að þáverandi sambýliskonu sinni með veggkertastjaka sem hann hafði stuttu áður rifið af vegg.

Maðurinn var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir brot gegn konunni í tvígang, annars vegar í ágúst 2019 og svo í júlí 2020. Taldi dómurinn að um brot í nánu sambandi væri að ræða þótt að þau væru ekki í skráðri sambúð og þau væru ekki skráð með sameiginlegt lögheimili. Var meðal annars horft til þess að þau hefðu verið kærustupar í nokkurn tíma og að eignir þeirra væru á sama stað.

Fyrra brotið var í kjölfar þess að þau höfðu bæði neytt kókaíns um kvöld eitt. Fóru þau út að ganga í Elliðaárdal og missti konan þar meðal annars meðvitund vegna neyslunnar, en til ryskinga kom í íbúð þeirra eftir þetta. Vildi maðurinn meina að konan hefði fengið áverka þegar hún féll í jörðina og hann veitti henni skyndihjálp.

Áverkavottorð var hins vegar talið styðja frásögn konunnar og var í heildina ekki talið að áverkarnir væru í samræmi við þá lýsingu að hún hefði fengið þá við fallið. Þá var ekkert sem studdi ummæli mannsins um að hann hefði beitt neyðarvörn þar sem konan hefði veist að honum. Var framburður þeirra beggja talinn stöðugur, en framburður konunnar trúðverðugri.

Í seinna brotinu kom konan heim um kvöld og aftur kom til ósættis meðal fólksins. Viðurkenndi maðurinn að hann hefði sest ofan á hana og sett kodda fyrir vit hennar og hótað henni líkamsmeiðingum. Sagði hann hins vegar að það hefði verið gert til að stöðva hana í árás á sig.Þá kannaðist hann við að hafa rifið niður kertastjakann af veggnum, en að hann hafi aðeins ætlað að hóta henni með honum. Sagðist hann jafnframt hafa misst stjórn á sér og kastað stjakanum og að hann hafi óvart lent í læri konunnar.

Vinur konunnar fór með hana á bráðamóttöku og samkvæmt áverkavottorði var hún með útbreidda áverka og samrýmdist það endurteknum höggum um líkamann og höggi í andlit þannig að af hlaust nefbrot. Þá var talið að áverkar á fótleggjum gætu verið eftir kertastjaka.

Réttarmeinafræðingur vitnaði einnig um að áverkarnir bentu til ofbeldis með kertastjakanum og að konan hefði verið tekin kverkataki, en ekki að kertastjakanum hefði verið beitt að höfði konunnar eins og hún hafði borið fyrir í skýrslutöku hjá lögreglu.

Töldust brot mannsins því sönnuð, að öðru leyti en að hann hafi lamið konuna í höfuðið með kertastjakanum. Þá naut hann einnig vafans varðandi að hafa rifið í hár konunnar og að hafa potað í auga hennar, líkt og ákært var fyrir.

Maðurinn var einnig fundinn sekur um tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar með því að hafa reynt að stinga annan mann við skemmtistað í bænum. Sveiflaði hann þar hníf og urðu vitni að málinu.

Að lokum játaði maðurinn þó nokkur þjófnaðarbrot. Samkvæmt sakaskrá hefur hann átt sakaferil frá árinu 2003, meðal annars 10 mánaða dóm frá því í fyrra vegna endurtekinna líkamsárása og þjófnaðar.

Taldi dómurinn við hæfi að dæma manninn í 18 mánaða fangelsi, en auk þess 8,3 milljónir í sakarkostnað, meðal annars 6,5 milljónir í málsvarnarlaun sinna lögmanna. Þá var honum gert að greiða konunni 1,2 milljónir í bætur og manninum sem hann reyndi að stinga 800 þúsund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert