„Það er ekkert ljós handan ganganna“

Helga Vala Helgadóttir þingmaður er að eigin sögn sami eldheiti …
Helga Vala Helgadóttir þingmaður er að eigin sögn sami eldheiti Evrópusinninn og hún hefur alltaf verið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég skil alveg þennan pólitíska leik sem hann virðist vera í, hann er alveg skiljanlegur,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is um grein Sigmars Guðmundssonar, þingmanns Viðreisnar, sem birtist á Vísi í morgun og mbl.is fjallaði um.

„Ég held nú að ég falli í hinn hópinn sem Sigmar talar um þegar hann talar um hluta þingflokksins,“ heldur Helga Vala áfram og vitnar þar í þau orð Sigmars að hluta þingflokks Samfylkingarinnar sé „slétt sama um Evrópumálin“.

„Ég hef ekki farið leynt með mína skoðun á því að við keyrum á þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir Helga Vala og vísar þar til Evrópusambandsins, þess eilífðarþrætueplis Íslands og Noregs. Kveðst hún deila skoðunum með Sigmari á því að halda því máli vel gangandi.

Spurning hvað Sigmar meinar

„Mín persónulega skoðun er ekkert leyndarmál, en við erum í pólitík og þá skjótum við hvert á annað. En mér finnst að Sigmar megi ekki gleyma því þegar hann er að tala um fjórflokkinn að hans flokkur er skilgetið afkvæmi fjórflokksins þannig að það er spurning hvað hann er að meina,“ segir Helga Vala og bætir því við að það sé góð og gild spurning hvort sé meiri fjórflokkur, Samfylkingin eða Viðreisn.

„Ég fer ekkert á taugum yfir þessu, ég er sami eldheiti Evrópusinninn og ég hef verið og tel Evrópumálin vera gríðarlega mikilvæg efnahags- og velferðarmál sem við þurfum að takast á við,“ segir þingmaðurinn og bætir því við að Ísland sé ekki í neinum tengslum við það sem sé að gerast í Evrópu og á Norðurlöndunum.

Ekkert smáræðis högg

„Þá á ég við það tjón sem er að verða á heimilum landsmanna núna. Við erum að tala um ofboðslega peninga sem eru að sturtast út um gluggann út af gjaldmiðli sem er svo veikur að það þarf að stýra honum með þeim hætti sem gert er. Við erum komin upp í 8,75 prósenta stýrivexti sem er ekkert smáræðis högg. Ríkisstjórnin svaraði engu í gær, það eru engar væntingar í kortunum, þau eru ekki með nein plön og það kyndir undir verðbólgu. Þá hefur Seðlabankinn engin önnur ráð en að hækka stýrivexti. Það er ekkert ljós handan ganganna,“ segir Helga Vala Helgadóttir Samfylkingarþingmaður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert