Körfubolti

Var á undan Steph Curry í þúsund þrista

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Buddy Hield hjá Sacramento Kings er mikil þriggja stiga skytta.
Buddy Hield hjá Sacramento Kings er mikil þriggja stiga skytta. Getty/Nic Antaya

Stephen Curry hefur verið duglegur að safna að sér NBA-metum tengdum þriggja stiga körfum en hann missti eitt slíkt met aftur í nótt.

Buddy Hield varð nefnilega fljótastur til að skora þúsund þrista í NBA deildinni í nótt þegar hann náði því í aðeins sínum 350 leik.

Stephen Curry náði þessu á sínum tíma í 369 leikjum og var Buddy því nítján leikjum á undan honum að ná þessum tímamótum.

Hield skoraði átta þriggja stiga körfur fyrir Sacramento Kings í naumu tapi á móti Charlotte Hornets í nótt og er þar með kominn með 128 þrista á tímabilinu og 1001 þrist á NBA ferlinum.

Hield hefyr nýtt 40,5 prósent þriggja stiga skota sinna á ferlinum. Hann byrjaði feril sinn hjá New Orleans Pelicans sem valdi hann í nýliðavalinu en hefur spilað með Kings undanfarin fimm tímabil.

Buddy er nú 28 ára gamall og fær tíma til að bæta við mörgum þristum í framtíðinni.

Stephen Curry sjálfur er kominn með 2657 þrista í 732 leikjum á sínum NBA-ferli og er eins og er í öðru sætinu á eftir Ray Allen á lista yfir flestar þriggja stiga körfur í sögu NBA deildarinnar í körfubolta. Ray Allen skoraði á sínum tíma 2973 þrista.

Buddy Hield varð aftur á móti 120. leikmaðurinn í sögu NBA sem nær að setja niður þúsund þrista.

Buddy Hield becomes the fastest player in NBA history to hit 1,000 threes (350 games). He surpassed Stephen Curry, who reached the milestone in 369 games.

Posted by Basketball Forever on Sunnudagur, 28. febrúar 2021
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×