Viðurkenning sem vegur þungt

„Tungumálið er oft notað sem kúgunartæki. Þeir sem ekki hafa …
„Tungumálið er oft notað sem kúgunartæki. Þeir sem ekki hafa aðgang að réttu orðunum verða þá undir. Ég vil berjast gegn þessari skuggahlið tungumálsins,“ segir Gerður Kristný sem í dag hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

„Þessi viðurkenning vegur mjög þungt, enda einn mesti heiður sem Íslendingi getur hlotnast,“ segir Gerður Kristný sem við hátíðlega athöfn í Hörpu í dag, á degi íslenskrar tungu, hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar.

Í samtali við mbl.is segir hún viðurkenninguna hafa komið sér ánægjulega á óvart og tekur fram að gaman sé að bætast í hóp þeirra sem hlotið hafa verðlaunin frá því þau voru fyrst veitt Vilborgu Dagbjartsdóttur 1996 þegar 189 ár voru liðin frá fæðingu Jónasar.

Aðspurð segir Gerður Kristný að ljóð Jónasar hafi fylgt henni síðan í barnaskóla þegar hún lærði ljóðið „Ísland“, sem prentað var í Skólaljóðunum, utan að og þuldi kvæðið upp í heild sinni þar sem hún stóð fyrir aftan stólinn sinn. „Ég er svo heppin að vera af þeirri kynslóð þar sem börn voru látin læra ljóð utanað og flytja fyrir bekkinn.“

Gefið þolendum kynferðisofbeldis rödd

Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar dags íslenskrar tungu, sem í sátu Ingunn Ásdísardóttir sem var formaður, Haukur Ingvarsson og Katrín Olga Jóhannesdóttir, segir að við veitingu verðlaunanna að þessu sinni hafi verið tekið mið af fjölhæfni verðlaunahafans. Bent er á að Gerður Kristný hafi skrifað fjölda bóka fyrir bæði börn og fullorðna, verk hennar hafa verið sett upp á leiksviði, ljóð hennar sungin auk þess sem hún hefur kennt fjölmargar ritsmiðjur fyrir börn. 

„Rödd Gerðar Kristnýjar er mikilvæg í íslensku samfélagi ekki aðeins vegna þess hvernig hún segir hlutina heldur líka vegna alls þess sem hún hefur að segja,“ segir í rökstuðningnum og sérstaklega á það minnt að Gerður Kristný hafi gegnum tíðina gefið þolendum kynferðisofbeldis rödd. Þannig hafi hún í samtímanum gefið þolendum færi á að segja sögur sínar á síðum Mannlífs sem Gerður Kristný ritstýrði og bókinni Myndinni af pabba – Sögu Thelmu, en í skáldskapnum megi horfa til ljóðabókarinnar Blóðhófnis.

„Mér þykir mjög vænt um þessa umsögn, enda er skýr þráður á milli Myndarinnar af pabba og Blóðhófnis og síðan Drápu og Sálumessu. Tungumálið er oft notað sem kúgunartæki. Þeir sem ekki hafa aðgang að réttu orðunum verða þá undir. Ég vil berjast gegn þessari skuggahlið tungumálsins og trúi því að orðin bendi að endingu á það sem er satt og rétt; sársauka og þjáningu en líka fegurð og reisn,“ segir Gerður Kristný. Lengri gerð viðtalsins má lesa á menningarsíðum Morgunblaðsins á morgun, þriðjudag. 

Sérstök viðurkenning fyrir störf í þágu íslensks máls

Samhliða Verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar er ávallt veitt sérstök viðurkenning fyrir störf í þágu íslensks máls, en þá viðurkenningu hlýtur í ár Félag ljóðaunnenda á Austurlandi. 

Í rökstuðningi ráðgjafanefndar kemur fram að Félag ljóðaunnenda á Austurlandi hafi starfað í á þriðja áratug. „Það hefur vakið verðskuldaða athygli á skáldum og skáldskap landsfjórðungsins með vönduðu útgáfustarfi. Í því sambandi má nefna sýnisbókina Raddir að austan (1999) sem hefur að geyma ljóð eftir 122 þálifandi skáld og ritröðina Austfirsk ljóðskáld sem hóf göngu sína í upphafi nýrrar aldar en í henni hefur komið út amk ein ljóðabók á ári síðan. Nú fyrir skömmu gaf félagið út Hugurinn einatt hleypur minn þar sem er birtur og rakinn kveðskapur og æviferill Guðnýjar Árnadóttur, Skáld-Guðnýjar, 1813–1897, en hún var fátæk húskona og ljósmóðir á Fljótsdalshéraði og í Lóni um sína daga. Félag ljóðaunnenda á Austurlandi hefur með félagsstarfi sínu hlúð að grasrótinni í íslenskum skáldskap, aukið við flóru íslenskra góðskálda og haldið í heiðri minningu eldri skálda sem nú eru gengin. Félag ljóðaunnenda hefur sýnt að á Austurlandi er ekki aðeins, eyjaval, eins og Jónas Hallgrímsson orti heldur líka skáldaval. Af þeim sökum fær Félag ljóðaunnenda á Austurlandi sérstaka viðurkenningu fyrir störf í þágu íslensks máls á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar,“ segir í rökstuðningnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert