Stígandi í leik liðsins

Kyle McLagan, miðvörður Víkings og fyrrverandi leikmaður Fram, í baráttu …
Kyle McLagan, miðvörður Víkings og fyrrverandi leikmaður Fram, í baráttu við Jannik Pohl, sóknarmann Framara. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Hlynur Atli Magnússon, fyrirliði Framara, segir að hlutirnir hafi ekki alveg fallið með sínu liði í dag, en Hlynur skoraði eina mark liðsins í 4:1 ósigri þess á Víkingsvellinum í 5. umferð Bestu deildar karla í kvöld.

„Mér fannst við gera vel í upphafi leiks,“ segir Hlynur Atli, en Framarar fengu þá tvö ágæt færi áður en Víkingar náðu að komast yfir. „Við héldum vel boltanum og komum okkur í færi, en þetta er ekki að falla með okkur alveg eins og við viljum. En mér finnst vera góður taktur í þessu, það er ekki eins og við séum ekki að fá færi, en við verðum að fara að nýta þau betur, því það getur orðið ansi dýrt þegar upp er staðið,“ segir Hlynur.

Hlynur Atli Magnússon, fyrirliði Fram, í leik með liðinu á …
Hlynur Atli Magnússon, fyrirliði Fram, í leik með liðinu á síðasta tímabili. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Hlynur segir aðspurður að hann telji nú ekki að um „nýliðaóheppni“ sé að ræða. „Nei, nei, við þurfum jafnvel að hafa meira fyrir hlutunum en ella, en ég vil meina að það búi hellingur í okkur. Við þurfum bara að halda áfram okkar striki, og við erum ekki að missa móðinn yfir þessu,“ segir Hlynur Atli. 

„Við vitum að Víkingur er gott lið, og við munum ekki svekkja okkur of mikið á þessu tapi.“ Hann játar að liðið hafi fengið á sig hálfklaufaleg mörk, en segir að liðið muni þá vonandi bara læra af reynslunni og mæta tvíefldir til næsta leiks.

Ákvað að láta bara vaða

Hlynur Atli skoraði laglegt mark fyrir Framara á 61. mínútu, sem kveikti smávonarneista í liðinu. „Ég sé glufu á hægri kanti, ég var þá kominn í hægri bakvörðinn,“ segir Hlynur Atli. Hann hafi því ákveðið að keyra á Loga Tómasson, bakvörð Víkinga. „Mér sýndist ég ekki sjá neinn [í teignum] og ákvað því að láta bara vaða,“ segir Hlynur Atli. „Við viljum helst klára færin með skoti, það var búið að tala um það bæði fyrir leik og í hálfleik, og hann söng þarna í netinu.“

Hann segir miður að liðið hafi fengið á sig sjálfsmark nokkrum mínútum síðar, þar sem það hafi verið góður stígandi í leik Fram-liðsins fram að því. „Við vorum ekkert ótrúlega lélegir, heldur vorum við klaufar að fá á okkur þessi mörk í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik þorðum við meira og sækjum betur á þá og komumst betur inn í leikinn. Ég held að þetta hefði orðið allt annar leikur með öðru marki hjá okkur.“

Hlynur Atli segir að Framarar geti tekið ýmislegt jákvætt með sér í næsta leik liðsins, sem er á móti Leikni í Breiðholtinu. „Við erum að koma okkur í færi, við spilum vel á milli okkar og við þorum að halda boltanum. Við þurfum að þétta aðeins aftan til,“ segir Hlynur Atli.

„Við vitum hvað við þurfum að bæta og þetta hefur verið stigvaxandi hjá okkur í sumar. Við munum ekki gefa neinn einasta leik í sumar. Við ætlum þá bara að klára næsta leik á móti Leikni og mætum öflugir til leiks þar,“ segir Hlynur Atli að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert