Viljum fá fólkið í landinu með okkur

Jón Dagur Þorsteinsson og Arnar Þór Viðarsson.
Jón Dagur Þorsteinsson og Arnar Þór Viðarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins, reiknar með því að liðin í J-riðli undankeppni EM 2024 muni koma til með að reita stig af hvoru öðru þar sem fjögur þeirra séu mjög áþekk að getu.

Arnar Þór hefur fyrri reynslu af riðlum þar sem mörg áþekk lið að getu etja kappi, en sú var raunin þegar hann þjálfaði U21-árs landslið karla og stýrði liðinu á lokamót EM 2021 í aldursflokknum.

„Ég veit það til dæmis frá því ég var að þjálfa U21-árs liðið og við komumst á lokamót. Þá vorum við í riðli með Ítölum, Svíum og Írum.

Þarna voru fjögur lið, Ítalía var í sérflokki, og hin þrjú liðin voru að taka stig af hvoru öðru sem síðan varð til þess að við fórum í úrslitaleik á móti Írum úti á Írlandi og komumst á EM.

Það eru mörg dæmi um að svona riðlar verði svolítið öðruvísi heldur en algengt er,“ sagði hann í samtali við mbl.is eftir blaðamannafund í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í gær.

Ekki um úrslitaleik að ræða

Ísland hefur leik gegn Bosníu og Hersegóvínu í undankeppninni og fer leikurinn fram í Zenica í Bosníu næstkomandi fimmtudag.

„Leikurinn núna úti í Bosníu er mikilvægur og við ætlum að sjálfsögðu að fara inn í þann leik með það að markmiði að taka stig, en hann er ekki úrslitaleikur. Þetta er maraþon, þetta eru tíu leikir og við vitum um það bil hvað við þurfum að ná í mörg stig í þessum tíu leikjum.

Við þurfum að ná í þau einhvers staðar á leiðinni og við viljum ná árangri í þessum fyrsta leik til þess að byrja vel. Ekki bara upp á stigin að gera heldur líka til þess að fá fólkið í landinu, okkar stuðningsmenn, aftur með okkur í lið þannig að við getum fyllt völlinn hérna tvisvar í júní.

Það eru möguleikar og við erum bjartsýnir en það er ekkert auðvelt í íþróttum,“ sagði Arnar Þór einnig í samtali við mbl.is.

Ítarlega er rætt við Arnar Þór á íþróttasíðum Morgunblaðsins á morgun.​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​​

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert