Stjarnan í undanúrslit eftir háspennu

Ísold Sævarsdóttir sækir að körfu Hauka í kvöld.
Ísold Sævarsdóttir sækir að körfu Hauka í kvöld. mbl.is/Arnþór

Stjarnan er komin í undanúrslit Íslandsmóts kvenna í körfubolta eftir sigur á Haukum, 75:73, í oddaleik liðanna í Ólafssal á Ásvöllum í kvöld. Stjarnan vann einvígið 3:2.

Stjörnukonur byrjuðu af miklum krafti og unnu fyrsta leikhlutann 23:10. Haukar svöruðu með 22:16-sigri í öðrum leikhluta og var staðan í hálfleik 39:32, Stjörnunni í vil.

Stjarnan fór svo með 58:45-forskot í fjórða og síðasta leikhlutann eftir góðan þriðja leikhluta. Haukakonur minnkuðu muninn undir lokin, en Stjarnan hélt út.

Katarzyna Trzeciak skoraði 19 stig fyrir Stjörnuna og Denia Davis-Stewart gerði 18 stig og tók 18 fráköst.

Keira Robinson skoraði 21 stig, tók átta fráköst og gaf níu stoðsendingar fyrir Hauka. Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði 15 stig.  

Stjarnan mætir deildar- og bikarmeisturum Keflavíkur í undanúrslitum. Njarðvík og Grindavík mætast í hinu einvíginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka