Flugraskanir á Heathrow vegna þoku

British Airways hefur aflýst 80 flugferðum í morgun vegna takmarkaðs …
British Airways hefur aflýst 80 flugferðum í morgun vegna takmarkaðs skyggnis á Heathrow. AFP

Tugum flugferða hefur verið aflýst á Heathrow-flugvellinum í London í morgun vegna ískaldrar þoku sem liggur yfir vellinum og byrgir þar sýn. Greinir breska ríkisútvarpið BBC frá því að flugfélagið British Airways hafi þegar fellt niður 80 flug það sem af er morgni.

Varað var við þokunni í gærkvöldi og flugfélögum gert orð um að þau yrðu að fækka flugferðum sínum um 15 prósent. Hitastig á vellinum í morgun var um sex gráður í mínus og skyggni lítið vegna þokunnar. Meðal áfangastaða sem ekkert verður af flugi til í bili eru Amsterdam, Berlín og Miami.

Unnið í málinu

Gul viðvörun er nú í gildi til klukkan 11 vegna þokunnar og nær hún til svæða á Suður- og Austur-Englandi. British Airways hefur sent farþegum sínum afsökunarbeiðni vegna óþægindanna og fullvissar þá um að þar á bæ sé allt gert til að koma þeim í loftið svo fljótt sem verða megi.

„Við fullvissum flugfarþega um að starfsfólk okkar er í góðu samstarfi við flugfélögin og flugumferðarstjórn þótt einhverjar breytingar verði á áætlun vegna veðurs og allir leggjast á eitt við að koma farþegum örugglega í flug eins fljótt og hægt er,“ segir talsmaður flugvallarins við BBC.

BBC

The Independent

inews

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert