Í erfiðum málum eftir tap í Rússlandi

Sverrir Ingi Ingason lék allan leikinn með PAOK.
Sverrir Ingi Ingason lék allan leikinn með PAOK. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sverrir Ingi Ingason og samherjar hans hjá gríska liðinu PAOK eru í erfiðum málum í umspili um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir tap gegn rússneska liðinu Krasnodar á útivelli í fyrri leik liðanna í kvöld, 2:1. 

Gat PAOK komist yfir strax á 7. mínútu en Matvey Safonov í marki Krasnodar varði vítaspyrnu frá Dimitris Pelkas. Pelkas bætti upp fyrir klúðrið á vítapunktinum með fyrsta marki leiksins á 32. mínútu. 

Viktor Claesson jafnaði á 39. mínútu úr víti og Rémy Cabella, fyrrverandi leikmaður Newcastle, tryggði Krasnodar 2:1-sigur með marki á 70. mínútu. Sverrir Ingi Ingason lék allan leikinn með PAOK og fékk gult spjald í uppbótartíma. 

Mikael Anderson kom inn á sem varamaður á 76. mínútu hjá Midtjylland frá Danmörku er liðið heimsótti Slavía Prag til Tékklands. Lauk leiknum með markalausu jafntefli. 

Fara síðari leikir einvígjanna fram á miðvikudaginn eftir rúma viku. Sigurliðin fara í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en tapliðin í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert