Köstuðu vatnsflöskum inn á völlinn

Robert Lewandowski, hér í baráttu við Mikael Anderson, og félagar …
Robert Lewandowski, hér í baráttu við Mikael Anderson, og félagar hans í pólska landsliðinu urðu fyrir aðkasti stuðningsmanna Albaníu í gærkvöldi. AFP

Gera þurfti hlé á leik Albaníu og Póllands í undankeppni HM 2022 í knattspyrnu karla í Tirana í gærkvöldi þegar stuðningsmenn Albana hófu að fleygja vatnsflöskum í leikmenn Póllands þegar skammt lifði leiks.

Karol Swiderski kom Pólverjum yfir þegar 13 mínútur voru eftir af leiknum og albönsku stuðningsmennirnir tóku reiði sína út með því að fleygja hlutum, í flestum tilfellum vatnsflöskum inn á völlinn, sem leiddi til þess að leikmenn Póllands gengu af velli.

Skömmu áður hafði stuðningsmaður Albaníu kastað hlut í Piotr Zielinski.

Tuttugu mínútna hlé var gert á leiknum vegna þessa áður en leikurinn var kláraður. Pólland vann hann 1:0 og kom sér þannig upp fyrir Albaníu í annað sæti I-riðils, þar sem England er í efsta sæti.

Markaskorarinn Swiderski fór í viðtal eftir leikinn en Jakub Kwiatkowski, þjálfari Póllands, hvatti hann til þess að hætta því þar sem albönsku stuðningsmennirnir hófu enn á ný að kasta plastflöskum í átt að Swiderski.

Í sama riðli voru stuðningsmenn Ungverja einnig til vandræða á Wembley í gærkvöldi, þar sem nokkrir þeirra slógust við lögreglumenn og einn var handtekinn fyrir kynþáttaníð í garð starfsmanns í gæslu.

„FIFA er um þessar mundir að fara yfir tilkynningar um ólæti í leikjum í undankeppni HM í gærkvöldi með það fyrir augum að ákvarða hvernig skuli bregðast við.

FIFA fordæmir atvikin á leik Englands og Ungverjalands og Albaníu og Póllands og vill árétta að sambandið tekur harða og ákveðna afstöðu þegar kemur að því að hafna öllum tegundum ofbeldis auk hverrar tegundar mismununar eða níðs. FIFA hefur ekkert umburðarlyndi fyrir slíkri viðbjóðslegri hegðun í knattspyrnu,” sagði í tilkynningu frá Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert