Erlent

Frum­rann­sóknir bendi til aukinnar hættu á endur­sýkingu vegna Ó­míkron

Árni Sæberg skrifar
Tedros Adhanom Ghebreyesus, er yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, er yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. EPA-EFE/FABRICE COFFRINI

Fyrstu vísbendingar benda til þess að auknar líkur séu á að fólk, sem þegar hefur smitast af kórónuveirunni, smitist aftur af Ómíkron-afbrigði hennar, að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) leggur þó áherslu á að ekki sé enn hægt að fullyrða um aukna hættu á endursýkingu, í tilkynningu á vefsíðu sinni.

Sóttvarnalæknir segir að það muni skýrast á næstu vikum hvort grípa þurfi til frekari aðgerða vegna útbreiðslu Ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar. Það eigi enn eftir að koma í ljós hvernig afbrigðið hagar sér en svo virðist sem það sé meira smitandi.

Að sögn WHO er ekki enn ljóst hvort afbrigðið sé meira smitandi en fyrri afbrigði veirunnar. Þó hafi fjöldi þeirra sem greinast smitaðir aukist í Suður-Afríku, þar sem Ómíkron-afbrigðið greindist fyrst. Smitsjúkdómarannsóknir séu nú í ferli til að skera úr um hvort það sé vegna afbrigðisins eða af öðrum sökum.

Þá sé ekki heldur ljóst hvort afbrigðið valdi alvarlegri veikindum en önnur afbrigði. Fjöldi þeirra sem þurft hefur á sjúkrahúsinnlögn að halda hafi aukist í Suður-Afríku en ekki sé hægt að fullyrða að það sé vegna nýja afbrigðisins.

WHO segir einnig að verið sé að rannsaka hvort bóluefni veiti minni vörn gegn sýkingu af völdum Ómíkron en öðrum afbrigðum. Bóluefni veiti þó eftir sem áður öfluga vörn gegn alvarlegum sjúkdómseinkennum Covid-19.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×